Innlent

Lætur börn sín ekki gera heimavinnu: „Mér finnst skólakerfið eitthvað öfugsnúið“

Atli Ísleifsson skrifar
Kristjana segir það miklu meira gefandi að eiga öðruvísi stundir með krökkunum en að sinna heimavinnunni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Kristjana segir það miklu meira gefandi að eiga öðruvísi stundir með krökkunum en að sinna heimavinnunni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
„Mér finnst bara svo einkennilegt að setja allt þetta heimanám á krakkana þegar við verjum restinni af starfsævinni í að reyna að taka vinnuna ekki með okkur heim,“ segir Kristjana Helga Þorgeirsdóttir, fjögurra barna móðir, í samtali við Reykjavík síðdegis.

Kristjana Helga er eitt þeirra foreldra sem lætur grunnskólabörn sín ekki gera þá heimavinnu sem börnin eru send með heim. Hún hafi lengi verið á þeirri skoðun.

Hún segist bæði hafa reynslu af Hjallastefnunni og „hefðbundnum skólum“. Ekki sé heimanám í Hjallastefnunni. „Það er bara yndislestur. Það er hvatt til að lesa en það eru ekki þessi stærðfræðiverkefni og þessi endalausu verkefni sem að koma. Þetta eru langir dagar hjá krökkunum, alveg eins og hjá okkur fullorðna fólkinu. Þeir fara í íþróttir og tónlist, “ segir Kristjana Helga og bendir á að tómstundir barna leggist oft á alla daga vikunnar, eftir skóla.

Kristjana segir það miklu meira gefandi að eiga öðruvísi stundir með krökkunum en að sinna heimavinnu. „Ég veit að yngsta dóttir mín sem er tólf ára, hún myndi frekar vilja hjálpa til með að elda kvöldmatinn. Í gær fórum við á landsleik í fótbolta frekar en að gera heimanám. Um helgina fór hún í réttir með afa sínum. Hún tók heimanámið með sér í réttirnar, en tók það hins vegar aldrei upp úr töskunni. Mér fannst hitt vera meiri gæðastund.“

Hreyfa sig hálftíma á dag

Kristjana Helga spyr hvers vegna skólakerfið miði ekki frekar að því að kenna börnum því sem fullorðnu fólki sé síðan kennt alla ævi.

„Við kennum fólki að það sé gott að hreyfa sig hálftíma á dag, vera úti, setja það inn í lífsstílinn. Fólk er að hamast við það að temja sér það að vera í hreyfingu. Ég skil ekki af hverju við leggjum ekki aukna áherslu á það í skólakerfinu að það sé skipulögð hreyfing í hálftíma á hverjum degi og aðeins færri kennslustundir í einhverjum bóklegum fögum sem gætu alveg verið minna af.“

Öfugsnúið kerfi

Hún segir skrýtið að námsefnið sé ekki klárað í skólanum, þannig að hægt sé að eiga gæðastund með fjölskyldunni eða vinum að skóla og vinnu lokinni. „Eins með hreyfinguna. Ég hef aldrei skilið af hverju það er leikfimi bara einu sinni í viku. Síðan þegar þú ert orðinn fullorðinn þá eyðir þú nánast allri ævinni í að reyna að temja þér góða lífshætti með því að vinna skynsaman vinnudag og reyna að taka ekki vinnuna með þér heim og hreyfa þig reglulega. Mér finnst skólakerfið því eitthvað öfugsnúið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×