Innlent

Borgin boðar hundraða milljóna viðsnúning

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Viðbótarfé borgarinnar til leik- og grunnskóla
Viðbótarfé borgarinnar til leik- og grunnskóla
Í gær samþykkti borgarráð aðgerðaáætlun í leik- og grunnskólum. Framlög hækka um 919 milljónir á þessu ári. Á næsta ári munu framlög vegna átján mánaða barna í leikskóla hækka um 425 milljónir auk framlaga vegna launahækkana.

Mikill þrýstingur hefur verið á borgaryfirvöld vegna niðurskurðar sem boðaður var á skóla- og frístundasviði auk þess sem skólarnir áttu að taka með sér halla ársins 2015 yfir á nýtt ár. Síðustu vikur hafa leikskólastjórar og foreldrar látið vita af óánægju sinni með þeim árangri að aðgerðirnar voru endurskoðaðar og í raun snúið við.

„Við erum að vinna upp hagræðinguna og gott betur með þessum aðgerðum,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs. „Framlög til leikskóla nema nú um fjórfalt hærri upphæð en hagræðingin sem þeir þurftu að bera á árinu og grunnskólar fá í sinn hlut rúmlega þrefalt hærri fjárhæð en hagræðingarkrafan hljóðaði upp á.“

Skúli segir viðbótar svigrúm hafa myndast þar sem hagræðing síðustu ár hafi gengið vel og ekki síður af því að tekjur borgarsjóðs hafi aukist.

Leikskólagjöld munu ekki hækka en fæðisgjald í leik- og grunnskólum hækkar um hundrað krónur á dag fyrir hvert barn, um 2.000 krónur á mánuði. Þannig fær hvert skólabarn fjórðungi hærri upphæð í hráefni á degi hverjum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×