Innlent

Nýtt fiskveiðiár: Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 86,6% af aflamarkinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Guðmundur í Nesi ER 13, en hann fær 8.324 þorskígildistonn eða 2,25% af úthlutuðum þorskígildum.
Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Guðmundur í Nesi ER 13, en hann fær 8.324 þorskígildistonn eða 2,25% af úthlutuðum þorskígildum. Vísir
Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 en það hófst í dag, 1. september. Að þessu sinni var úthlutað 369.925 tonnum í þorskígildum talið. Aukning á milli ára samsvarar um 1.530 þorskígildistonnum. Alls fá  504 skip úthlutað aflamarki  að þessu sinni samanborið við 534 á fyrra fiskveiðiári.

Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Guðmundur í Nesi ER 13, en hann fær 8.324 þorskígildistonn eða 2,25% af úthlutuðum þorskígildum.

Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 86,6% af því aflamarki sem úthlutað er og er það álíka og í fyrra. Alls fá 398 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða um 20 aðilum færra en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 10,3% af heildinni, næst kemur Samherji með 6% og þá Þorbjörn hf. með 5,5%. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár.

Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert mikið meira  úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 12,1% af heildinni samanborið við 12,4% í fyrra. Næst mest fer nú til Grindavíkur, eða 10,6% af heildinni sem er samdráttur um 0,8 prósentustig frá fyrra ári. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum ráða fyrir 9,9%  úthlutunarinnar eins og í fyrra.

Um 1570 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi árs sem  skel- og rækjubótum  en það er svipað og í fyrra og fara þau til 30 báta samanborið við 32 báta á fyrra ári.

Sjá nánar á vef Fiskistofu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×