Innlent

Styrkingin ekki skilað sér til neytenda

Ásgeir Erlendsson skrifar
 Alþýðusamband Íslands segir eðlilegt að neytendur geri þá kröfu að afnám vörugjalda á byggingarvörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar skili sér í vasa þeirra. Þvert á móti hefur vísitala byggingarvara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu geta lækkað umtalsvert.

Í upphafi ársins 2015 voru vörugjöld afnumin af tilteknum byggingarvörum og á sama tíma var virðisaukaskattur lækkaður úr 25,5 prósent í 24 prósent. Á sama tíma hefur gengi krónunnar styrkst mikið og til að mynda hefur gengi hennar gagnvart evru styrkst um 16 prósent á þessu tímabili. Alþýðusamband Íslands hefur undanfarnar vikur skoðað verðþróun á byggingarvörum hér á landi með þetta til hliðsjónar.

„Þetta hefði auðvitað allt átt að skila sér í lækkun á byggingarvörum. En við sjáum í þeim tölum sem við höfum – vísbendingar úr vísitölu neysluverðs sem Hagstofan mælir og okkar eigin skoðunum, þá sjáum við engar vísbendingar um að þetta hafi skilað sér í neinni lækkun í byggingarvörum til neytenda,” segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ.

Vísitala byggingarvara hefur á hinn bóginn hækkað um 1,5 prósent á tímabilinu sem um ræðir. Hafa skal í huga að vörur á borð við steypu, timbur og einangrun báru ekki vörugjöld fyrir breytingarnar en engu að síður vekur það upp spurningar hvers vegna hagstæð gengisþróun hafi ekki haft áhrif á vísitöluna.

„VIð hefðum að minnsta kosti átt að sjá áhrifin þannig að það kæmi fram sem lækkun en ekki hækkun á þessum vöruflokk og það er auðvitað mjög eðlilegt að almenningur geri kröfu að þetta skili sér í lægra vöruverði til neytenda,” segir Henný.

Sigurður Pálsson, forstjóri Byko segir að fyrirtækið hafi skilað vörugjaldslækkunum til neytenda en kjarasamningar síðasta árs hafi verið þungt högg og í ljós lítils veltuhraða á birgðum geti fyrirtækið fyrst núna farið að skila gengisstyrkingunni út í vöruverð.

Við höfum skilað út í verðlagið gengisstyrkingunni eins og hún hefur komið til okkar. Hafa ber í huga að fyrst núna sem að gengisstyrkingin fer að hafa áhrif vegna þess að við erum að keyra á tiltölulega lágum veltuhraða og að koma gengisstyrkingunni í gegn tekur þennan tíma. Þannig að það er fyrst núna sem við erum farin að sjá möguleika á því að koma henna út,” segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×