Innlent

Um 25 þúsund manns sagt sig úr norsku þjóðkirkjunni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Óslóardómkirkja.
Óslóardómkirkja.
Tæplega 25 þúsund manns hafa á tæpum mánuði sagt sig úr norsku þjóðkirkjunni í gegnum nýja vefsíðu sem gerir fólki kleift að staðfesta veru sína í kirkjunni, skrá sig í hana, eða segja sig úr henni, sem hingað til hefur ekki verið hægt. Um 1.200 manns hafa á sama tíma skráð sig í kirkjuna í gegnum síðuna, en henni var komið upp 12. ágúst síðastliðinn.

Helga Haugland Byfuglien, skrifstofustjóri þjóðkirkjunnar, segist í samtali við norska fjölmiðla ekki hafa áhyggjur af þessum úrsögnum. Þessi fjöldi sé ekki mikill enda séu um 3,9 milljónir meðlima í norsku þjóðkirkjunni. Þá virði hún ákvörðun hvers og eins.

Helga segir kirkjuna jafnframt hafa verið undirbúna fyrir þessar hópúrsagnir, enda hafi umfjöllun fjölmiðla um nýju vefsíðuna verið töluverð að undanförnu.

Það sem af er þessu ári hafa 34.331 skráð sig úr kirkjunni, og 2.035 skráð sig í hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×