Innlent

Missti eyra í líkamsárás í Hafnarstræti

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Mikill erill var hjá lögreglu í nótt.
Mikill erill var hjá lögreglu í nótt. vísir/heiða
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en alls voru 100 mál tilkynnt frá klukkan fimm í gærdag til klukkan 5 í morgun.

Ekið var á sjö ára gamlan dreng á reiðhjóli þegar hann fór yfir gangbraut við Vífilsstaði á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Að sögn lögreglu slapp drengurinn með skrámur en hann var skoðaður af sjúkraflutningamönnum og ekið beint heim að lokinni skoðun á vettvangi.

Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu í nótt. Um klukkan hálf fjögur réðst par á leigubílstjóra, slógu hann í höfuðið og brutu rúðu í bifreið hans. Leigubílstjórinn leitaði sjálfur á slysadeild til aðhlynningar.

Um klukkan fjögur var ráðist á mann við Alþingishúsið og hann ítrekað sleginn í andlit. Árásarmaðurinn hafið flúið vettvang þegar lögregla kom á staðinn.

Skömmu síðar var svo tilkynnt um líkamsárás í Hafnarstræti en eyra vantaði á fórnarlamb árásarinnar samkvæmt tilkynningu lögreglu og var hann fluttur á slysadeild. Árásarmaðurinn var í mjög annarlegu ástandi. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Tilkynnt um bílveltu við Nóatún rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Ökumaðurinn var einn í bílnum og er hann er grunaður um ölvun við akstur auk þess sem hann var réttindalaus.

Alls eru eitt hundrað mál skráð hjá lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í morgun. Margar tilkynningar komu vegna hávaða, ölvunar, slagsmála, líkamsárása, eignaspjalla og fleira. Sex gistu fangageymslur vegna þeirra mála sem komu upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×