Innlent

Keila í staðinn fyrir skötusel og langa borin fram sem þorskur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í eitt skipti var skötuselur borinn fram sem keila.
Í eitt skipti var skötuselur borinn fram sem keila. vísir/getty

Það er alþekkt í matvælageiranum um allan heim að svindlað sé vísvitandi á viðskiptavinum veitingahúsa. Þetta segir Jónas R. Viðarsson fagstjóri hjá MATÍS en rannsókn sem starfsmenn stofnunarinnar unnu að leiddi í ljós að í 22 prósent tilfella var borinn fram rangur fiskur á veitingastað miðað við það sem gefið var upp á matseðli.
 
Greint var frá niðurstöðunum í Morgunblaðinu í dag en bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í mars. Þá var rangur fiskur borinn fram í þrjátíu prósent tilvika. Þá var farið á tíu veitingastaði í Reykjavík og tekin 27 sýni. Nú var farið á 22 veitingastaði, flesta á höfuðborgarsvæðinu en einnig í einu byggðarlagi úti á landi, og tekin fimmtíu sýni. Ellefu sýni voru ekki í samræmi við það sem gefið var upp á matseðli.

„Þessi rannsókn okkar er hluti af stærri rannsókn þar sem verið er að gera sams konar rannsóknir í nokkrum Evrópulöndum og á næsta ári mun síðan birtast ritrýnd grein með niðurstöðunum. Þetta er ekki stórt úrtak hér á landi en algengasti tegundaruglingur er sem sagt á milli túnfisktegunda. Það er í samræmi við erlendar rannsóknir þar sem mikið er um svindl eða rangar merkingar þegar kemur að túnfisk,“ segir Jónas.

Sushi-staðirnir verstir
Í fimm tilfellum kom túnfiskur við sögu. Tvisvar var guluggatúnfiskur borinn fram í stað bláuggatúnfisks sem tiltekinn var á matseðli og í þremur tilfellum var boðið upp á gláparatúnfisk í guluggatúnfisks. Gláparatúnfiskurinn og guluggatúnfiskurinn eru í svipuðum verðflokki en bláuggatúnfiskurinn er miklu dýrari heldur en guluggatúnfiskurinn.

Jónas segir að það sé því ólíklegt að veitingamenn hreinlega ruglist á þeim tegundum en í öðrum tilvikum þar sem um innfluttan fisk er að ræða geti verið að matreiðslumennirnir treysti einfaldlega því sem standi á pakkningunni.

„Ef maður tekur mismunandi tegundir af veitingastöðum þá eru sushi-staðirnir verstir og það er kemur til út af þessu með túnfiskinn,“ segir Jónas.

Gríðarlegur verðmunur á keilu og skötusel
Í þremur tilvikum var langa borinn fram í stað þorsks, í eitt skipti var hlýri á disknum í staðinn fyrir steinbít, einu sinni var boðið upp á keilu í stað skötusels og svo var þorskur borinn fram í stað ýsu.

Sé miðað við verð á fiskmörkuðum er langan töluvert ódýrari en þorskur en ýsan er ódýrari en þorskurinn og hlýrinn dýrari en steinbíturinn. Þá er gríðarlegur verðmunur á skötusel og keilu, en sem dæmi má nefna að í Fiskikónginum kostar kílóið af skötusel 5990 krónur og kílóið af keilu 2090 krónur.

Miðað við rannsókn MATÍS má segja að það sé nokkuð algengt að rangur fiskur fari á diskinn hjá viðskiptavininum á veitingastaðnum.

„Þetta er þekkt úr matvælageiranum og það er mjög algengt að það sé verið að svindla vísvitandi á fólki. Maður getur nefnt alls konar furðuleg dæmi eins og til dæmis að reynt sé að selja svínakjöt sem nautakjöt,“ segir Jónas.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.