Innlent

Lét aflífa ungan hund án samráðs við eiganda

Jakob Bjarnar skrifar
Elvis, ungur þýskur fjárhundur. Honum var lógað af ræktanda að eiganda forspurðum, að því er eigandinn segir. Mikið uppnám ríkir nú meðal hundaeigenda.
Elvis, ungur þýskur fjárhundur. Honum var lógað af ræktanda að eiganda forspurðum, að því er eigandinn segir. Mikið uppnám ríkir nú meðal hundaeigenda. Skjámynd af Facebook
Auður Kristín Pálmadóttir viðskiptafræðingur birti sérdeilis sláandi frásögn inni á Facebook-hópnum Hundasamfélagið, hvar áhugamenn um hunda bera saman bækur sínar. Þar kemur fram að ræktandi ungs Scheffer-hunds hafi haft hann í sinni umsjá og látið aflífa, án samráðs við Auði Kristínu, eiganda hundsins.

Uppnám í Hundasamfélaginu

Verulegt uppnám ríkir nú meðal hundaeigenda sem koma saman á þessum vettvangi og eru stóru orðin hvergi spöruð. Meðlimir á Hundasamfélaginu eru rúmlega 18 þúsund.

„R.I.P. Elsku Elvis minn!!! Ræktandinn fór og lét taka hann af lífi án þess að láta einn né neinn vita og svarar ennþá engum símum né skilaboðum!! Við erum gjörsamlega í molum!! Hann þjáðist af aðskilnaðarkvíða en það á ENGINN rétt á að drepa hund sem þú átt ekki!! Passið vel uppá hundana ykkar, öruggasti staður sem við héldum að við hefðum látið hann á reyndist svo vera endirinn á hans lífi!! Hvíldu í friði elsku Elvis minn, ég mun sakna þín meira en allt,“ segir Auður Kristín.

Skjámynd af Hundasamfélaginu. Þar ríkir nú verulegt uppnám, meðal hundaeigenda sem furða sig mjög á þeim gerningi sem þar er lýst.Skjámynd af Facebook
Athugasemdirnar hrannast inn og eru flestir á einu máli um að þetta þarna sé um býsna hrottalegar aðfarir að ræða og efast margir um lögmætið, bæði af hálfu ræktandans sem og er spurt hvort dýralæknir sem framkvæmdi aflífunina þurfi að koma til samþykki eigandans. Auður Kristín ítrekar í athugasemdum að víst sé að hundinum hafi verið lógað, en ræktandinn, sem ónefnt er hver er, svari engum skilaboðum frá henni.

Kærir málið til lögreglu

Auður Kristín birtir orðsendingu sem hún sendi ræktandanum sem hún segir að hafi staðið fyrir því að hundinum var lógað. Í þeirri orðsendingu, sem er mjög harðorð, segir að ræktandinn hafi logið því til að að hundaeftirlitið hafi tekið hundinn Elvis og lógað honum. En, það hafi verið ræktandinn sem stóð fyrir því. Um sé að ræða ófyrirgefanlegan gjörning, hún hafi pappíra og kaupsamning til sönnunar því að hún sé réttur eigandi hundsins og hafi greitt 220 þúsund krónur fyrir hann á sínum tíma. Það sé því hennar, og einskis annars, að ákveða hvort hundurinn yrði drepinn eða ekki.

Uppfært 17:00

Í samtali við Vísi segist Auður Kristín ekki vilja nafngreina ræktandann að svo stöddu. „Við erum að reyna fara eins lagalega að þessu og hægt er.“

Lógaði hundinum vegna aðskilnaðarkvíða

Auður segir aðspurð að vegna persónulegra aðstæðna hafi þau fjölskyldan þurft að fá pössun fyrir hundinn í smá tíma.

„Við létum vin okkar fá hundinn í pössun og eftir smá tíma hjá honum í pössun heyrir ræktandinn af honum þar í gegnum sameiginlegan vin og vill endilega fá að passa hann. Síðastliðin föstudag reynum við ítrekað að hafa samband við ræktandann sem svarar ekki en tölum við vin okkar sem segir að hún hafi gefið hann annað. Okkur auðvitað dauðbregður og reynum aftur ítrekað að hafa samband en enginn svör frá henni fást. Ég mæti þangað persónulega en það svarar enginn og það var ekki fyrr en í gærkvöldi að ræktandinn hringir sjálf í mig og segir mér að hundaeftirlitið hafi tekið hundinn og sett hann í skapgerðarmat og það eigi að lóga honum.“

Auður segir svo að í morgun, þegar hún hringdi í hundaeftirlitið, hafi komið á daginn að þau hafi ekki hundinn og hafi engin afskipti haft af honum. „Það kemur í ljós að hún lét sjálf lóga hundinum vegna þess að henni fannst honum líða illa og fannst hann vera illa haldin af aðskilnaðarkvíða.“

Fær ekki hundinn til að jarða

Og rétt á meðan Vísir var að ræða við Auði Kristínu berast henni þau skilaboð, frá heilbrigðiseftirlitinu, að hún fái ekki einu sinni hundinn dauðann til að jarða hann. „Það er búið að fara með hann uppá Álfsnes þar sem dýrahræjum er fargað,“ segir Auður Kristín, og er henni illa brugðið. Enda var hundinn henni og fjölskyldunni allri mjög kær.

Hún segir jafnframt að þetta sé gríðarlega sorglegt, svona nokkuð eigi ekki að geta gerst. „Við erum í áfalli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×