Innlent

Skáklandsliðin á sigurbraut

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lenka, Guðlaug, Hallgerður og Veronika fyrir umferðina gegn Moldóvu. Fyrir aftan stendur þjálfarinn Björn Ívar.
Lenka, Guðlaug, Hallgerður og Veronika fyrir umferðina gegn Moldóvu. Fyrir aftan stendur þjálfarinn Björn Ívar. mynd/skáksambandið
Íslensku landsliðin í skák unnu bæði sínar viðureignir í 4. umferð Ólympíuskákmótsins sem fram fer í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan, um þessar mundir.

Kvennasveitin hafði sigur gegn sterkri sveit Moldóvu en andstæðingarnir voru stigahærri á öllum borðum. Lenka Ptacnikova og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir unnu baráttusigra með svörtu og Veronika Steinunn Magnúsdóttir náði jafntefli á 4. borði. Aðra umferðina í röð vannst sigur gegn sterkri sveit en síðast voru það Englendingar sem lágu í valnum.

Karlasveitinn vann Færeyinga nokkuð örugglega með 3 ½ vinningi gegn ½. Hannes Hlífar Stefánsson gerði jafntefli við Helga Dam Ziska á 1. borði en aðrir unnu. Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson hefur farið mikinn það sem af er móti og unnið allar sínar skákir.

Á morgun mætir karlasveitin Eistum en konurnar etja kappi við Mexíkóa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×