Innlent

Drengurinn skelfingu lostinn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Níu ára drengur var á gangi eftir göngustíg rétt ofan við Þorlákshöfn í gær þegar ókunnugur maður kom aftan að honum og reyndi draga hann inn í bíl til sín. Drengurinn náði að koma sér undan. Móðir drengsins segir hann vera skelfingu lostinn eftir atburðinn.

Maðurinn kom aftan að drengnum á göngustíg og reyndi að draga hann inn í bíl til sín.

„Drengurinn minn var að labba til vinkonu sinnar þegar hann verður var við að maður kemur og stekkur að honum og rífur í hann og segist ætla að taka hann með sér til Reykajvíkur í kjallarann sinn,“ segir Sigrún.

Drengurinn sem er níu ára gamall, brást hárrétt við og komst undan manninum.

„Hann rífur í drenginn en drengurinn minn er svo snöggur og snar að hann gefur honum afturspark í sköflunginn. Hann hljóp svo í burtu. Hann gat lýst manninum vel fyrir lögreglunni eins og barn getur,“ segir Sigrún.

Sigrún segir lögregluna hafi rætt við drenginn skömmu eftir atvikið. Hún segir son sinn vera hræddan eftir atburðinn. „Hann er hræddur að eðlisfari. Það getur tekið tíma að vera bara einn og við höfum verið að vinna í því. Hann er mjög skelkaður og hræddur við allt,“ segir Sigrún.

Í Facebook-hópnum „Íbúar í Þorlákshöfn“ hefur skapast töluverð umræða um málið en Sigrún setti inn færslu um málið í þvon um að vara við manninum. Í athugasemdum við færsluna kemur fram að um þrjú tilvik sé að ræða sem upp hafa komið síðustu daga. Þá lét Sigrún skóla drengsins vita. „Svo fóru að spinnast upp umræður um að það væru fleiri tilvik sem hefðu komið upp í bænum en lýsingin er ekki eins á öðru málinu og málinu hjá drengnum mínum,“ segir Sigrún.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa embættinu borist 23 tilkynningar um að reynt hafi verið að tæla barn upp í bíl á árinu. Í fyrra bárust embættinu 27 tilkynningar en í meðalári berast hins vegar 40-50 tilkynningar. Árið 2014 voru tilkynningarnar 58 talsins. Áætlað er að fjöldinn verði svipaður í ár en lögreglan segir miklar sveiflur í slíkum tilkynningum. Tilkynningarnar geta verið ólíkar og er ekki alltaf um að ræða tilraun til að nema börn á brott.

Sigrún segir að foreldrar verði að ræða vel við börnin sín en umræða um tælingar geri það að verkum að börnin hafi varann á. Hún segir erfitt að vera foreldri í þessari stöðu.

Lýsing drengsins á manninum er það eina sem lögreglan hefur eins og staðan er í dag en ekki liggur fyrir lýsing á bílnum. Hann er sagður vera 30 til 40 ára gamall, um 180 cm á hæð. Þybbinn með ljósbrúnt hár.

Lögreglan á Suðurlandi hefur málið til rannsóknar en samkvæmt upplýsingum frá embættinu er málið í algjörum forgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×