Innlent

Forsetinn fer á Ólympíumót fatlaðra í Ríó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. vísir/eyþór
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur þekkst boð Íþróttasambands fatlaðra um að sækja Ólympíumót fatlaðra (Paralympics) sem fram fer í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Mótið hefst í dag og lýkur þann 18. september.

Forsetinn mun verða viðstaddur setningarathöfn mótsins sem fram fer í kvöld og hefst klukkan 21 að íslenskum tíma. Næstu daga mun Guðni síðan heimsækja Ólympíuþorpið og hitta íslenska keppendur, þjálfara og starfsmenn. Þá mun hann bjóða íþróttafólkinu og fylgdarliði ásamt fjölskyldum keppenda til móttöku.

„Í heimsókninni mun hann einnig sækja íþróttaviðburði þar sem íslenskir keppendur taka þátt, og eiga fund með Sir Philip Craven, forseta alþjóðanefndar Paralympic leikanna (IPC). Fundinn sitja einnig forystumenn Íþróttasambands fatlaðra,“ segir í tilkynninu frá forsetaembættinu.

Forsetinn heldur svo frá Ríó að kvöldi laugardagsins 10. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×