Innlent

Telur að hægt sé að forgangsraða í þágu skólastarfs í borginni

Höskuldur Kári Schram skrifar
Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í borginni telur að hægt sé að draga verulega úr boðuðum niðurskurði í skólamálum með því að fresta framkvæmdum og spara á öðrum sviðum sem ekki tilheyra grunnþjónustu.

Skóla og frístundasviði borgarinnar er gert að hagræða um 670 milljónir á þessu ári. Skólastjórnendur hafa gagnrýnt þetta og telja sig að óbreyttu ekki geta uppfyllt lögbundið hlutverk.

Rætt var um málið á borgarstjórnarfundi í gær þar sem minnihlutinn gagnrýndi niðurskurðarkröfu meirihlutans. Sjálfstæðismenn telja að hægt sé að komast hjá þessum niðurskurði með því að breyta forgangsröðun.

„Forgangsröðun þýðir það að þú velur marga kosti sem allir eru góðir en þú verður að taka einhverja út úr og skólarnir eru mikilvægasta grunnþjónustan. Við teljum að það sé hægt að spara á öðrum sviðum og nota meira í skólana,“ segir Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Hann telur að hægt sé að spara á þeim sviðum sem ekki tilheyra grunnþjónustu.

„Við lögðum líka til eitt og annað varðandi fjárfestingar sem mætti fresta eða fella niður. Við töluðum um Gröndalshús, um hinn margfræga Grensásveg þar sem liggja eitthvað um 170 milljónir. Grófarhús, viðbygging við Borgarbókasafnið, sem mætti bíða. Það mun kosta eitthvað um 800 milljónir upp í milljarð þegar upp verður staðið. Þannig að við höfum alveg pening inni í kerfinu til þess að hagræða og forgangsraða,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×