Innlent

Tíu mánuðir fyrir skilasvik

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dómur frá í júlí var birtur í gær.
Dómur frá í júlí var birtur í gær. vísir/hari
Karlmaður á sjötugsaldri var dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir skilasvik af fjölskipuðum Héraðsdómi Norðurlands eystra. Refsingin er skilorðsbundin til þriggja ára. Dómur var kveðinn upp í málinu í júlí en hann var birtur í gær.

Maðurinn var eini eigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri lagna- og flutningsfyrirtækisins Dreggjar ehf. og færeyska félagsins Sp/f Dregg. Fyrirtækið skuldaði Byr hf. rúmlega 200 milljónir króna. Var maðurinn ákærður fyrir að hafa ráðstafað öllum vörubirgðum Dreggjar til annars félags í sinni eigu. Þá var hann ákærður fyrir að ráðstafa skipi í eigu færeyska félagsins en skipið hafði verið kyrrsett vegna skulda félagsins.

Maðurinn sagði að með gjörðum hans hefði verðmæti varanna aukist. Í niðurstöðu dómsins sagði að jafnvel þó svo væri breytti það því ekki að hann hefði ráðstafað eigum félags síns í óþökk veðhafa.

Maðurinn hefur ekki áður gerst brotlegur við refsilög en var með dómi Hæstaréttar í fyrra gert að greiða Íslandsbanka 225 milljónir króna vegna skulda félaga sinna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×