Innlent

Fjárlagafrumvarpi seinkar allavega fram í nóvember

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óvíst er hvort það verður Bjarni eða annar sem leggur fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017.
Óvíst er hvort það verður Bjarni eða annar sem leggur fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017. vísir/gva
Í gær samþykkti þingið bráðabirgðaákvæði við þingskaparlög þess efnis að nýtt haustþing komi ekki saman fyrr en að loknum kosningum. Ákvæðið hefur í för með sér að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 verður ekki lagt fram fyrr en í fyrsta lagi í nóvember.

Í dag er liðið ár og dagur frá því fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 var lagt fram. Í lögum um opinber fjármál segir að ráðherra skuli leggja fram fjárlagafrumvarp á fyrsta fundi haustþings. Undir venjulegum kringumstæðum væri stutt í frumvarpið fyrir árið 2017 eða það nú þegar komið fram. Framlagningarstund fjárlagafrumvarpsins ræðst síðan af því hvernig stjórnarmyndunarviðræður munu ganga fyrir sig.

„Það er óþægilegt að búa við þá óvissu að frumvarp til fjárlaga komi svo seint fram en við erum svo sem í þjálfum hvað það varðar,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Hann segir að ár hvert fari fram mikil vinna hjá stjórnendum við að skoða frumvarpið og máta reksturinn við það. Hann hafi þó litlar áhyggjur nú þar sem hljóðið í flestum stjórnmálaflokkum sé jákvætt.

„Starfsemi Landspítalans er gríðarlega umfangsmikil og nauðsynleg almannaheill og við munum halda okkar striki sama hvað.“

„Það er bagalegt að frumvarpið komi svo seint fram. Afleiðingin verður sú að það verður að vinna allar rekstaráætlanir undir mun meiri pressu og þrýstingi en vanalega,“ segir Björn Karlsson, formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana. „En við tökum þessu eins og öðru.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×