Innlent

Samfélagið gaf risastórt knús eftir eldsvoðann

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jóhanna Ósk ásamt syni sínum, Óðni. Hún ásamt allri fjölskyldunni mun mæta á tónleikana annað kvöld.
Jóhanna Ósk ásamt syni sínum, Óðni. Hún ásamt allri fjölskyldunni mun mæta á tónleikana annað kvöld. Vísir/Hanna
Fyrir tveimur vikum varð eldsvoði á Seltjarnarnesi. Jóhanna Ósk Snædal og fjölskylda hennar hafa búið í húsinu síðustu þrjátíu ár. Jóhanna er sjálf flutt að heiman en faðir hennar og bróðir bjuggu í húsinu þegar bruninn varð.

Síðasta árið hefur verið fjölskyldunni erfitt. Þau misstu húsið á nauðungaruppboði í apríl, móðir Jóhönnu lést í júlí eftir fimm ára baráttu við krabbamein og mánuði síðar brann húsið.

„Veikindi mömmu tóku gífurlega á og missirinn er mikill enda var hún kletturinn í fjölskyldunni sem hélt okkur öllum saman. Fyrir utan andlega álagið þá lentu foreldrar mínir í fjárhagskröggum sem varð til þess að þau misstu húsið en þau fengu leyfi til að leigja það í eitt ár,“ segir Jóhanna.

Fjölskyldan var nýbúin að ganga frá eigum og fötum móðurinnar þegar bruninn varð en eldurinn, reyk- og vatnsskemmdir eyðilögðu allt innbú fjölskyldunnar.





Eldur kviknaði í stofunni á æskuheimili Jóhönnu á Seltjarnarnesi. Reyk- og vatnsskemmdir eyðilögðu allt innbú. Fréttablaðið/Ernir
„Fyrir utan myndaalbúmin. Þau eru flest heil og við erum gífurlega þakklát fyrir að eiga myndirnar, ekki síst af mömmu.“

Ekki er staðfest hver eldsupptök voru en talið er að kviknað hafi í túbusjónvarpi í stofunni. Faðir Jóhönnu stendur nú uppi eignalaus á afar erfiðum tímapunkti í lífinu. Hann treysti sér ekki til að koma fram í fjölmiðlum en hann er þessa dagana að koma sér fyrir í nýrri íbúð ásamt bróður Jóhönnu.

Jóhanna skrifaði færslu á Face­book þar sem hún bað um stuðning fyrir föður sinn. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Tæpar tvær milljónir hafa safnast á styrktarreikning og á morgun verða haldnir styrktartónleikar.

„Ég á ekki orð yfir góðmennsku Íslendinga. Við erum svo snortin og það er svo gott að finna þennan stuðning, ekki endilega fjárhagslega, heldur tilfinningalega. Mér þykir svo vænt um þetta og hjartað hefur stækkað um fimm númer. Þetta er eins og risastórt knús frá samfélaginu.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×