Innlent

Herskip NATO við öllu búin í Sundahöfn

Una Sighvatsdóttir skrifar
Fastafloti Atlantshafsbandalagsins er fjölþjóðlegur og starfar hver flotadeild í nokkra mánuði í senn. Spænska freigátan Méndez Núnez er flaggskip Nato og henni til fulltingis er portúgalska herskipið Alvars Cabral.

ESPS Méndez Nuñés er 147 metra langt og 19 metra breitt og er það eitt af fimm F-100 freigátum sem spænski sjóherinn hefur yfir að ráða. Yfirlautinantinn Francisco José Asensi segir að skipið sé af fullkomnustu gerð og bendir á stærðarinnar ratsjár máli sínu til stuðnings.

 

Yfirlautinantinn Francisco José Asensi Pérez segir að Íslendingar geti fengið innsýn í hvernig lífið er um borð í herskipi.
Fullbúið til varna gegn loft- og kafbátahernaði

„Við sérhæfum okkur í loftvörnum, en við getum líka skyggnst undir yfirborð sjávar með vörnum gegn kafbátahernaði. Þess utan sinnum við öllum mögulegum aðgerðum á sjó, bæði öryggismálum, neyðaraðstoð og svo framvegis," segir Asensi.

Meðal tækja um borð er fullbúin þyrla sem Pérez segir að sé órjúfanlegur hluti af skipinu. „Þyrlan er skynjarinn okkar. Við getum sent hana í leiðangra frá skipinu og látið lítið á okkur bera en hún safnar upplýsingum og sendir okkur gegnum ratsjá, innrauðar myndavélar og fleira. Þetta eykur verulega getu okkar því hún færir út áhrifasvæði okkar."

Þurfa að vera viðbúin öllu

Skipin tvö lögðu að bryggju í morgun og var strax hafist handa við að hlaða þau birgðum fyrir komandi verkefni áhafnanna, sem telja ríflega 300 manns. Að sögn flotaforingjans Jose Enrique Delgado felur leiðangurinn í Norður-Atlantshaf ekki í sér ákveðið verkefni sem slíkt. 





Jose Enrique Delgado segir að herskip NATO glími við ýmsar áskoranir á heimsvísu, ekki síst vegna hryðjuverka og fólksflótta.
„Sem stendur erum við fyrst og fremst við þjálfun og æfingar á norðurhöfum Evrópu, en við þurfum öllum stundum að vera viðbúin því að taka að okkur hvers kyns verkefni, hvaða vandamál sem kunna að koma upp á okkar umráðasvæðum. Sem dæmi má nefna að fastafloti 2 (SNMG2) sem er systurfloti okkar, þau eru nú við störf í Miðjarðarhafinu, í samvinnu við Evrópusambandið og alþjóðasamfélagið, vegna flóttamannavandans sem þar ríkir. Það er eitt dæmi um það sem hersveitir okkar þurfa að vera búnar undir," segir Delgado. 

Bráðnun íss veldur því að öryggismál á Norðurslóðum eru ofar á baugi en áður. Fimm NATÓ ríki eiga aðild að Norðurskautsráðinu, þar á meðal Ísland. Delgado segir að NATÓ fylgist með þróun mála. „Þetta er vettvangur samvinnu fremur en ágreinings, en auðvitað höfum við alltaf gætur á því sem gerist á okkar ábyrgðarsvæði og hánorðrið og norðurskautið eru hluti af því svæði." 

Fólk hefur áhuga á að skyggnast bak við tjöldin

Skipin tvö verða opin almenningi bæði á laugardag og sunnudag milli 10:00 og 12:00 og aftur frá 15:00 til 19:00, en þau liggja við Skarfabakka. Flotaforinginn og yfirlautinantinn segjast báðir hlakka til að bjóða Íslendinga velkomna um borð.

„Yfirleitt hefur almenningur mikinn áhuga á að sjá hvar við erum með ræktina, hvar við eldum, hvar við borðum, hvar við vinnum," segir Asensi. „Við verðum með skoðunarferð um skipið og þá getur fólkið séð hvernig lífið er um borð í NATO-herskip, eða hið minnsta þessu tiltekna herskipi, Mendez Nunes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×