Innlent

Vill ekki leggja stjórnmálin fyrir sig sem ævistarf

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
„Ég hef verið að hugsa þetta í allt sumar og skipti sú spurning mestu máli hvort ég vildi leggja stjórnmálin fyrir mig sem ævistarf eða ekki,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra en hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Þetta tilkynnti hann í gær en þá rann prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík út.

„Ég hef verið í stjórnmálunum í 16 ár og komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi ekki að þetta yrði að mínu ævistarfi. Þegar ég komst að því þá fannst mér það blasa við að það yrði ekki auðveldara að taka þá ákvörðun að hætta eftir fjögur ár. Ég ákvað því að gefa ekki kost á mér núna þannig ég hafi lengri tíma og vonandi fleiri tækifæri en ella í öðru starfi,“ segir hann.

Illugi veit ekki hvað tekur við en segist vona að menntun sín og reynsla í stjórnmálum muni nýtast vel. „Þetta hefur verið skemmtilegur tími. Ég byrjaði sem aðstoðarmaður ráðherra beint eftir námið. Svo var ég þingmaður, þingflokksformaður og svo ráðherra. Atburðarásin í stjórnmálunum síðustu ár hefur verið ævintýraleg og það hefur verið áhugavert að vera inni í hringiðju þeirrar atburðarásar.“

Hann segist ekki hættur að hafa áhuga á stjórnmálum. „Ég mun að sjálfsögðu áfram styðja Sjálfstæðisflokkinn og vilja leggja honum allt það lið sem ég get.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×