Innlent

17 ára piltur ógnaði dyravörðum og lögreglu með hníf

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/ANTON BRINK
Rétt fyrir klukkan hálfþrjú í nótt barst lögreglu tilkynningu um pilt í annarlegu ástandi sem veittist að dyravörðum veitingastaðar í miðborginni með hníf.

Þegar lögreglan kom á staðinn ógnaði pilturinn lögreglu með hnífnum en hljóp svo burt. Hann náðist skömmu síðar að því er fram kemur í dagbók lögreglu og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Pilturinn er 17 ára gamall og var barnavernd því tilkynnt um málið.

Þá var stolin bifreið stöðvuð á Barónsstíg við Grettisgötu rétt eftir miðnætti. Búið var að stela öðrum skráningarnúmerum og setja á bílinn. Í bílnum voru svo fjórir einstaklingar í annarlegu ástandi og voru þau öll vistuð í fangageymslu vegna málsins. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum og að aka bíl á röngum númerum. Þá er einn farþeginn kærður fyrir vörslu fíkniefna.

Rúmlega klukkan sjö í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um hestaslys við Fluguskeið. Kona kastaðist af baki þegar hestur hennar fældist. Heyrði konan smell í bakinu þegar hún lenti, fann síðan til eymsla og var flutt með sjúkrabíl á slysadeild.  

Rétt eftir miðnætti var síðan tilkynnt um umferðaróhapp á Vesturlandsvegi við Viðarhöfða. Fjórir ölvaðir menn voru á vettvangi og kannaðist enginn þeirra við að hafa ekið bílnum. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×