Innlent

Bílalest niður Kambana út af Blómstrandi dögum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bílalestin niður Kambana um klukkan 14 í dag.
Bílalestin niður Kambana um klukkan 14 í dag. vísir
Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar stendur nú sem hæst í Hveragerði og er þangað stöðugur straumur af fólki að sögn Jóhönnu M. Hjartardóttur viðburðastjóra hátíðarinnar.

„Jú, það er rosalega margt fólk hér en það er orðið árlegt að hingað komi margir og taki þátt í hátíðinni með okkur. 

Laugardagurinn er svona stærsti dagurinn hjá okkur enda er ísdagur Kjöríss í dag sem trekkir að og heillar marga,“ segir Jóhanna í samtali við Vísi.

Ísveisla Kjöríss hófst klukkan 13 í dag og stendur til klukkan 16 en er þetta í tíunda sinn sem hún er haldin. Á boðstólnum er úr mörgum nýstárlegum bragðtegundum að velja í veislunni og má helst nefna Guðna forseta, Hilarrís, Trumpís, Geitamjólkurís og Wasabís.

Stöðugur straumur hefur verið í Hveragerði í dag á Blómstrandi daga.vísir
Jóhanna segir að mikið sé um að vera í bænum og dagskráin sé fjölbreytt; sýningar á vinnustofum og í galleríum, Fornbílaklúbburinn er á staðnum og svo er skemmtidagskrá í lystigarðinum.

Aðspurð hversu margir hafa lagt leið sína á hátíðina undanfarin ár og hversu mörgum Hvergerðingar eiga von á segir Jóhanna erfitt að nefna nákvæma tölu.

„Þetta hafa verið svona á bilinu sjö til tólf þúsund manns sem hafa verið að koma en bærinn ber þetta mjög vel enda dreifist dagskráin vel um bæinn.“

Mikil umferð hefur verið niður Kambana vegna hátíðarinnar eins og meðfylgjandi myndir sýna en Jóhanna bendir fólki á að einnig sé hægt að fara um Þrengslin; það muni ekki svo miklu í vegalengd en létti á umferðinni um Kambana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×