Lífið

Steve-O aftur á leið til Íslands

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Grínistinn Stephen Glover sem flestir kannast við undir nafninu Steve-O og þekkja einna best úr sjónvarpsþáttunum Jackass er væntanlegur hingað til lands í desember næstkomandi.

„Þetta er spennandi, hann var hérna árið 2011 og þá gekk það mjög vel. Það var í Háskólabíó og þá braut hann reyndar eitthvað borð. Það er auðvitað hluti af einhverri áhættusýningu og er eins og það er,“ segir Guðbjartur Finnbjörnsson aðalsprautan á bak við komu Steve-O. Ekki nóg með það að hann hafi brotið borð þá endaði hann sýninguna á því að kveikja í sér en hann hefur lengi verið þekktur fyrir fífldirfsku og fíflaskap.

Eftir að Jackass-sjónvarpsþættirnir og -myndirnar hættu í framleiðslu hefur Steve-O hafið sjálfstæðan feril og kemur nú fram með eigin uppistandssýningar. Sem stendur er hann að fara af stað með The End of the World-túr sem byggist að mestu leyti upp af uppistandi þó ekki sé loku fyrir það skotið að einhverjum áhættuatriðum bregði fyrir.

„Þetta er nýtt uppistand sem hann er að fara í gang með þannig að fólk má búast við því að hlægja svolítið og svo verður líka eitthvað spennandi í gangi ef maður þekkir sinn mann,“ segir Guðbjartur og viðurkennir að hann hafi sjálfur verið aðdáandi Jackass-gengisins.

Sýningin fer fram þann 22. desember, tveimur dögum fyrir jól og gæti því verið prýðileg fyrirfram jólagjöf. Kappinn kemur fram í Háskólabíói líkt og síðast og fer miðasala fram á Midi.is þann 18. ágúst.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×