Innlent

Jón Þór opnar vefinn Þingið: „Markmiðið er að almenningur sjái hvar völdin liggja“

Birgir Olgeirsson skrifar
Jón Þór Ólafsson opnaði vefinn Þingið í dag sem er ætla að gera leikreglur Alþingis aðgengilegri.
Jón Þór Ólafsson opnaði vefinn Þingið í dag sem er ætla að gera leikreglur Alþingis aðgengilegri. Vísir.
Píratinn Jón Þór Ólafsson hefur opnað vefinn Þingið sem er ætlað að gera leikreglur Alþingis aðgengilegri. Jón Þór hóf vinnu við vefinn þegar hann tók sæti á þingi fyrir hönd Pírata árið 2013. Hann hvarf af þeim vettvangi síðastliðið haust og setti þá allan sinn fókus á að ljúka þeirri vinnu á meðan hann var á biðlaunum í þrjá mánuði.

Hann sneri síðan aftur í vinnu hjá malbikunarstöðinni þar sem hann vann við uppsetningu á vefnum í pásum.

„Markmiðið er að almenningur sjái hvar völdin liggja og þar af leiðandi ábyrgðin og þeir sem vilja skipta sér af stjórnmálum geta á auðveldari hátt séð hvernig ferlarnir eru á þingi, sama hvort það eru aðgerðarhópar eða þingmenn og meira segja nýir þingmenn annarra flokka,“ segir Jón Þór um vefinn.

„Þú sérð hvaða ákvarðanir er verið að taka á Alþingi, hverjir taka þessar ákvarðanir og á hvaða vettvangi, það er að segja þingfundum eða nefndarfundum eða hvað. Þá ferðu að gera þér grein fyrir því hvernig mál eða ákvarðanir eru teknar og hreyfast í gegnum þingið. Hvaða ákvarðanir eru teknar, hver hefur hefur ákvörðunarvaldið og á hvaða vettvangi,“ segir Jón Þór.

Hann segir Alþingi vera með sinn vef og þar sé hægt að sjá hvar þingmál standa en ekki hægt að sjá hver er ábyrgur fyrir þeim á grundvelli hvaða leikreglna til að hreyfa málið áfram.

„Um leið og þú sérð það þá getur þú farið og sagt: „Þú hefur valdið til að hreyfa málið“ og þar af leiðandi er hægt að draga menn til ábyrgðar fyrir vanrækslu eða valdmisbeitingu.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×