Innlent

Ítalir skera upp herör gegn matarsóun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Allt að fimm milljón tonnum af matvælum er hent á ári hverju á Ítalíu.
Allt að fimm milljón tonnum af matvælum er hent á ári hverju á Ítalíu. Vísir/Getty
Ítalska þingið hefur samþykkt lög sem taka eiga á gríðarlegri sóun á matvælum þar í landi en áætlað er að um fimm milljón tonn af matvælum fari til spillis árlega þar í landi.

Lögin voru samþykkt með atkvæðum 181 þingmanns gegn tveimur atkvæðum en stefnt er að því að minnka matarsóun um eina milljón tonna árlega.

Samkvæmt tölum frá landbúnaðarráðuneyti Ítalíu henda heimili og fyrirtæki á Ítalíu matvælum að virði tólf milljarða evra á ári hverju.

Vandamálið er þó alls ekki eingöngu landlægt í Ítalíu en tölur frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) sýna að allt að einum þriðja af matvælaframleiðslu í heiminum í dag sé hent og er ástandið sérstaklega slæmt í Evrópu. Segir FAO að matvælum sem hent er í álfunni dugi til að fæða 200 milljón manns.

Samkvæmt lögunum nýju í Ítalíu verður fyrirtækjum gert auðveldara að gefa mat sem nálgast síðasta söludag auk þess sem lækka á skattbyrði þeirra fyrirtækja sem gefa mest frá sér.

Háum fjárhæðum verður einnig veitt í að finna leiðir til þess að finna betri leiðir til þess að pakka inn matvælum svo þau endist lengur auk þess sem fræða á almenning um skaðsemi þess að sóa matvælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×