Innlent

Fékk nálgunarbann á mann sem hefur áreitt hana og barnið hennar um árabil

Birgir Olgeirsson skrifar
Í málaskrá lögreglu eru skráð ellefu atvik frá árunum 2010 til 2013 þar sem konan tilkynnti um áreiti mannsins.
Í málaskrá lögreglu eru skráð ellefu atvik frá árunum 2010 til 2013 þar sem konan tilkynnti um áreiti mannsins. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni en hann hefur frá árinu 2010 verið undir grun um að beita barnsmóður sína áreiti, hótunum og ofbeldi.

Í málaskrá lögreglu eru skráð ellefu atvik frá árunum 2010 til 2013 þar sem konan tilkynnti slíka háttsemi af hálfu mannsins. Manninum hafði verið vísað úr landi og sætt endurkomubanni á tímabilinu frá 1. mars til 1. mars árið 2015. Þann 7. júní í fyrra tilkynni konan að maðurinn væri staddur á heimili hennar og viðhefði hótanir. Í kjölfar þess var manninum gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni en það var fellt úr gildi 12. Júní sama ár að því er virðist á þeim forsendum að aðilar hefðu verið í samskiptum eftir að bannið var lagt á.

Þann 15. desember í fyrra óskaði konan eftir aðstoð lögreglu þar sem maðurinn væri á heimili hennar og hefði í frammi hótanir, meðal annars um líflát. Þessum ásökunum neitaði maðurinn við skýrslugjöf hjá lögreglu.

Tíu dögum síðar, eða 25. desember 2015, tilkynnti konan til lögreglu að maðurinn hefði komið á heimili hennar og beitt  hana líkamlegu ofbeldi. Við skýrslutöku neitaði maðurinn slíkum ásökunum en lögreglan tók fram í skýrslu sinni að konan hefði verið með meiðsli á andliti og sýnilegar bólgur í kringum vinstra augað.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að ekki væri hægt að vernda friðhelgi konunnar og barnsins hennar öðruvísi en með nálgunarbanni. Gildir það í sex mánuði þar sem maðurinn má ekki koma á eða í námunda við heimili konunnar á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að maðurinn veiti konunni og barninu eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×