Enski boltinn

Þjálfari Albaníu telur sig rétta manninn í starfið hjá enska landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gianni De Biasi til Englands?
Gianni De Biasi til Englands? vísir/getty
Ítalinn Gianni De Biasi, þjálfari albanska fótboltalandsliðsins, vill verða næsti þjálfari Englands en það er þjálfaralaust eftir að Roy Hodgson sagði upp störfum.

Hodgson var ekki lengi að víkja eftir að England tapaði fyrir Íslandi, 2-1, í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi en Sam Allardyce, stjóri Sunderland, virðist líklegastur til að taka við af Hodgson eins og staðan er í dag.

Mikil umræða er á Englandi um hvort næsti þjálfari eigi að vera Englendingur eða hvort enska knattspyrnusambandið reyni aftur erlendan þjálfara.

De Biasi er sextugur Ítali með mikla reynslu en hann hefur þjálfað fjöldan allan af liðum á Ítalíu á borð við Torino, Brescia, Modena og Udinese þar sem hann var í starfi áður en hann tók við Albaníu árið 2011.

Hann hefur náð góðum árangri með albanska liðið og kom því í fyrsta sinn á stórmót en það var eitt af fimm nýliðum á Evrópumótinu ásamt Íslandi, Wales, Norður-Írlandi og Slóvakíu.

„Það er heiður að nafn mitt sé tengt við ráðningu á nýjum landsliðsþjálfara Englands,“ segir De Biasi í viðtali við The Sun.

„Ensku leikmennirnir eru hæfileikaríkir en það þarf að endurskoða liðið almennilega. Ég gæti aldrei hafnað því að taka við enska landsliðinu.“

„Ég er handviss um að ég myndi ná góðum úrslitum með enska liðið og þetta segi ég af mikilli auðmýkt,“ segir Gianni De Biasi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×