Innlent

Fækkaði um tæplega 400 í þjóðkirkjunni síðustu þrjá mánuði

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ásatrúarfélagið er eitt af skráðum trúfélögum á Íslandi en fleiri hafa skráð sig í minni trúfélögin síðustu ár en úr þeim.
Ásatrúarfélagið er eitt af skráðum trúfélögum á Íslandi en fleiri hafa skráð sig í minni trúfélögin síðustu ár en úr þeim. vísir/stefán
Alls gengu 364 fleiri úr þjóðkirkjunni en í hana á síðustu þremur mánuðum. Aftur á móti gengu 87 fleiri í fríkirkjurnar en úr þeim og 264 fleiri í önnur trúfélög en úr þeim á tímabilinu.

Þetta kemur fram í yfirliti Þjóðskrár Íslands sem tekur ársfjórðungslega saman tölur um breytingar á skráningum einstaklinga í þjóðskrá úr einu trú- og/eða lífsskoðunarfélagi í annað.

Á síðustu árum hefur mynstrið verið það sama. Fleiri hafa sagt sig úr þjóðkirkjunni en í hana og fleiri hafa skráð sig í önnur trú- og lífsskoðunarfélög en úr þeim. Á þessu sama tímabili árið 2013 gengu 325 fleiri úr þjóðkirkjunni en í hana. Árið 2014 var mismunurinn 410 og árið 2015 var hann 440. Því má segja að fækkun í þjóðkirkjunni sé í rénun ef litið er til þessara tímabila.

Þess má geta að ef foreldrar nýfædds barns eru í sama trú- eða lífsskoðunarfélagi skráist barnið sjálfkrafa í það trúfélag og er sú skráning ekki inni í þessum tölum þar sem hún telst ekki til breytinga. Ef foreldrar eru aftur á móti ekki í sama félagi telst skráning barnsins til breytinga þegar það er skráð í Þjóðskrá. Erlendir ríkisborgarar sem skráðir eru í Þjóðskrá teljast til nýskráninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×