Enski boltinn

Steve Bruce vill fá að þjálfa enska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Bruce dreymir um að taka við enska landsliðinu.
Steve Bruce dreymir um að taka við enska landsliðinu. Vísir/Getty
Englendingar eru enn að leita sér að nýjum landsliðsþjálfara eftir ófarirnar á móti Íslandi á EM í Frakklandi. Valið stendur nú á milli Steve Bruce og Sam Allardyce samkvæmt heimildum Sky Sports.

Steve Bruce og Sam Allardyce hafa báðir farið í viðtöl vegna starfsins og vilja báðir taka við enska landsliðinu af Roy Hodgson.

Steve Bruce vill endilega fá tækifæri til að þjálfara enska landsliðið eins og hann viðurkenndi í viðtali við Sky Sports í kvöld.

„Hvaða Englendingur vill ekki fá að þjálfa enska landsliðið? Þetta hlýtur að vera eitt eftirsóttasta starfið sem Englendingur getur komist í. Ég er sérstaklega þakklátur fyrir að koma bara til greina í starfið," sagði Steve Bruce við fréttamann Sky Sports fyrir æfingaleik Hull City og Mansfield.

„Allir Englendingar yrðu stoltir að fá að þjálfa enska landsliðið. Við skulum sjá til hvernig vikan þróast og vonandi verða þetta ánægjulegir dagar," sagði Steve Bruce.

„Þú veist aldrei hvernig svona viðtöl ganga. Ég vona að þetta hafi gengið ágætlega hjá mér. Ég er að keppa um starfið við góðan vin minn Sam. Það eru líka einhverjir aðrir í pottinum,“ sagði Bruce og hann skaut aðeins á gengi landsliðsins á síðustu mótum.

„Við höfum aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum okkar á stórmótum. Við erum með góða leikmenn og unga leikmenn. Þeir eiga að skipta mestu máli núna,“ sagði Bruce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×