Fótbolti

Tvö mörk Blika í Lettlandi dugðu ekki til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniel Bamberg skoraði í báðum leikjunum.
Daniel Bamberg skoraði í báðum leikjunum. vísir/eyþór
Breiðablik er úr leik í Evrópudeildinni eftir 2-2 jafntefli við Jelgava í Lettlandi í dag.

Jelgava vann fyrri leikinn á Kópavogsvelli 2-3 og einvígið því samanlagt 5-4.

Fyrir leikinn í dag var vitað að Blikar þyrftu að skora tvö mörk til að komast áfram. En t1vö mörk urðu að þremur þegar Daniils Turkovs kom Jelgava yfir eftir 15 mínútna leik.

Þrátt fyrir erfiða stöðu gáfust Blikar ekki upp og Ellert Hreinsson jafnaði metin á 31. mínútu. Aðeins mínútu síðar fiskaði hann vítaspyrnu sem Daniel Bamberg skoraði úr. Bamberg skoraði einnig í fyrri leiknum.

Eftir þennan frábæra kafla þurfti Breiðablik aðeins að skora eitt mark til að komast áfram. En það kom aldrei.

Lettarnir héldu Blikum í skefjum og á 70. mínútu jafnaði miðvörðurinn Abdoulaye Diallo metin í 2-2. Markið kom eftir hornspyrnu Mindaugas Grigaravičius en hornspyrnur hans skiluðu tveimur mörkum í fyrri leiknum og þremur alls í einvíginu.

Blikar þurftu áfram eitt mark, nú til að knýja fram framlengingu, en það kom ekki og Lettarnir fögnuðu í leikslok.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.