Innlent

Tæplega helmingur segist styðja Guðna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson nýtur stuðnings 49 prósenta þeirra sem afstöðu taka í nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.

Guðni tapar sjö prósentustigum frá könnun sem gerð var á mánudag í síðustu viku. Hann er þó enn með tæplega þrjátíu prósentustiga forskot á næsta frambjóðanda sem er Halla Tómasdóttir. Halla er með stuðning 19,6 prósenta þeirra sem afstöðu taka í könnuninni og bætir við sig tíu prósentustigum frá könnuninni í síðustu viku.

Þá segjast 12,9 prósent ætla að kjósa Andra Snæ Magnason og 12,4 prósent Davíð Oddsson. Samkvæmt könnuninni minnkar fylgi við Andra Snæ um 0,2 prósent milli vikna en það er innan vikmarka. Fylgi við Davíð minnkar um 3,7 prósent. Sturla Jónsson mælist núna með 2,5 prósent, en aðrir eru með minna fylgi.

Þegar svörin eru skoðuð í heild sést að átta prósent segjast myndu kjósa Andra Snæ, sjö prósent Davíð, 30 prósent Guðna, tólf prósent Höllu, eitt prósent Sturlu og aðrir frambjóðendur eru samtals með tvö prósent. Þá segjast fjögur prósent ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 26 prósent vera óákveðin og 10 prósent neita að svara.

Könnunin var gerð á þriðjudag. Hringt var í 928 manns þar til náðist í 799 og svarhlutfall því 86,1%. Alls tóku 60,3 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.