Innlent

Lausnir í samgöngum munu skipta sköpum í loftslagsmálum

Svavar Hávarðsson skrifar
Grænni samgöngur eru lykilatriði í að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.
Grænni samgöngur eru lykilatriði í að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. vísir/stefán
Aðgengilegar, greiðar og efnahagslega sjálfbærar samgöngur eru meðal lykilþátta til að ná markmiðum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá Parísarráðstefnunni í desember.

Samgönguráðherrar ríkja innan International Transport Forum (ITF), alþjóðasamtaka um samgöngumál, lýstu yfir á ráðstefnu sem lauk í Leipzig í Þýskalandi í síðustu viku að aðgerðir ríkja til að draga úr mengandi útblæstri, nýta tækni og hvetja til aðgengilegra almenningssamgangna muni skipta sköpum til að ná markmiðum um grænar og aðgengilegar samgöngur. Frá þessu segir á vef innanríkisráðuneytisins.

Fram kemur í yfirlýsingu ráðherranna að stöðugt auknir sjóflutningar, aukning í farþega- og fraktflugi og öðrum greinum samgangna kalli á aðgerðir stjórnvalda svo og aukið samstarf Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

José Viegas, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði mikilvægt að brúa bilið milli markmiða frá loftslagsráðstefnunni og raunveruleikans og nú yrðu allar greinar samgangna að sýna hvernig unnt væri að draga úr koltvísýringsmengun. Þetta væru metnaðarfull markmið en aðeins á þann hátt væri unnt að ná markinu.

Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, sat ráðherrahluta fundarins fyrir hönd innanríkisráðherra. Alls voru þátttakendur liðlega eitt þúsund frá 71 ríki.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.