Innlent

Eldhraun skilar litlu vatni út í veiðiárnar

Kristján Már Unnarsson skrifar

Hamfarahlaupið sem kom í Skaftá í haust virðist hafa haft þau áhrif að grunnvatnsstaða í Eldhrauni hefur aldrei mælst lægri. Þekktar veiðiár, eins og Grenlækur, eru nánast vatnslausar. 

Þetta var stærsta Skaftárhlaup sögunnar, það eyðilagði brýr og vegi, en flæmdist líka yfir hraunið sem rann í Skaftáreldum árið 1783 og það er að hafa sínar afleiðingar. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Snorra Zóphóníasson, jarðfræðing á Veðurstofu Íslands, um stöðuna, en viðtalið má sjá hér að ofan. 

Hlaupið rauf einnig nokkra varnargarða sem höfðu þann tilgang að halda vatnsrennsli frá aðalfarveginum, Eldvatni, og beina því austur á bóginn. Þetta veldur því að dregið hefur úr rennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur og einnig fer nú minna vatn út í Eldhraun.  Þurrviðri í stöðugri norðanátt að undanförnu hefur svo hjálpað til að snarlækka grunnvatnsstöðu og hefur hún aldrei mælst lægri í Fljótsbotni í Eldhrauni. Lindir og þekktar veiðiár, sem spretta undan hrauninu, eru að þorna.

Flogið yfir Skaftárhlaupið í haust. Með flóðvatninu barst mikill aur út í Eldhraun sem þéttir hraunið.

Lengi hefur verið deilt um það hversu mikið mannskepnan eigi að grípa inn í þetta ferli með varnargörðum. Slíkum vatnaveitingum út á hraunið fylgir aurburður og sandfok, sem ekki eru allir á eitt sáttir við, að sögn Snorra. En hvað er þá til ráða? 

“Ég veit það ekki. Ég myndi nú, held ég, laga þessar stíflur, sem veita vatninu austur, til þess að hressa upp á grunnvatnið,” svarar Snorri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×