Innlent

Enginn má lenda í neinu

Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Óttar Guðmundsson ræðir ferilinn, fíknisjúkdóma og dálæti fjölmiðla á viðtölum við ,,aumingja vikunnar“. Hann segir engan geta lifað algjörlega sléttri og felldri tilveru. Manneskjan þoli nefnilega ansi margt.
Óttar Guðmundsson ræðir ferilinn, fíknisjúkdóma og dálæti fjölmiðla á viðtölum við ,,aumingja vikunnar“. Hann segir engan geta lifað algjörlega sléttri og felldri tilveru. Manneskjan þoli nefnilega ansi margt. Vísir/Ernir
„Það er verið að greina allt mögulegt í dag sem menn hefðu aldrei greint sem geðsjúkdóm áður. Það er verið að taka tilvistarvanda og hann er allt í einu orðinn hluti af geðlæknisfræðinni. Hlutir eins og sorg, ástarsorg, tilvistarkreppa. Ég trúi því að við séum alltof oft að greina eitthvað sem eru kannski meira og minna eðlileg viðbrögð við ákveðnu óeðlilegu áreiti,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir.

Hann hefur vakið mikla athygli fyrir umdeilda pistla sína og störf sem læknir. Þá hefur hann skrifað bækur, sem margar hverjar hafa vakið mikið umtal.

„Ég er til að mynda að tala um þessa ofnotkun á orðinu áfallastreita og áfallastreituröskun. Þetta að kalla til áfallateymi við öllu mögulegu. Við erum farin að reikna með að manneskjan geti ekki orðið fyrir neinu áfalli. Við eigum að lifa algjörlega sléttri og felldri tilveru og ef eitthvað kemur fyrir eigum við rétt á áfallahjálp. Þetta hefur aldrei viðgengist í sögu mannkynsins. Menn hafa sætt sig við það að lífið er enginn dans á rósum og það gengur á ýmsu. En nú lifum við á tímum þar sem er krafa um að enginn lendi í neinu nokkru sinni. Við eigum að vera varin fyrir öllu áreiti. Ef eitthvað kemur fyrir okkur rjúkum við upp, hringjum í blöðin og látum vita af þessu eða eigum rétt á áfallahjálp.“

En er ekki bara allt í lagi að fólk fái áfallahjálp ef það verður fyrir áfalli? „Auðvitað er það í lagi. Ég er bara ekki viss um að það sé betra. Ég held það sé líka ágætt að vinna sjálfur úr ákveðnum hlutum og sætta sig við að svona er lífið. Maður sé ekki alltaf að kalla eftir aðstoð hins opinbera, það eigi ekki alltaf einhver annar að bera ábyrgð á fólki.“

Ofuráhersla á gildi áfalla

Óttar vinnur nú sem geðlæknir á Landspítalanum, á almennri deild, auk þess sem hann stýrir kynáttunarvandateymi Landspítalans, þar sem hann styður fólk í gegnum kynleiðréttingu. Hann hóf ferilinn í taugasjúkdómalækningum og fór þaðan yfir í lyflækningar, sem hann hefur reyndar doktorspróf í. Þegar hann kom heim frá Svíþjóð, úr námi, gerðist hann heimilislæknir.

„Svo gerðist ég áfengislæknir – fór að vinna hjá SÁÁ við fíknilækningar.“

En eins og með fíknisjúkdóma, nú hefur mikið verið rætt um að áföll hafi kannski eitthvað með fíknisjúkdóma að gera. „Við höfum nú alltaf vitað það að það er ekki til sá alkóhólisti sem hefur ekki ástæðu fyrir því að hann drekkur. Ég er sjálfur alkóhólisti og hef aldrei fundið þann alkóhólista sem getur ekki sagt mér í löngu máli eða stuttu af hverju hann varð alkóhólisti og er ég nú búinn að upplifa þá marga.

Auðvitað er alltaf verið að reyna að finna skýringu á öllu, hvort sem það er vegna þess að mamma og pabbi skildu þegar viðkomandi var fimm ára eða það var hundur í næsta húsi sem urraði á hann þegar hann var sjö ára og síðan hefur hann verið alkóhólisti. Það er alltaf hægt að finna eitthvað og nú er komin þessi ofuráhersla á gildi áfalla. Þetta er oft hluti af afneitun alkóhólistans. Það er mikið fjölmiðlamál. Þið eruð skotin í áföllum. Áföll eru ykkar eftirlætisefni,“ útskýrir Óttar og segir viðtöl í blöðunum of oft snúast um áföll.

„Þetta er orðið þannig að það er alltaf eitthvað sérstakt sem gerir það að verkum að líf viðkomandi er eins og það er. Þetta er ný hugsun því fólk var mikið æðrulausara hér áður. Áföll voru bara hluti af lífinu sjálfu. Nú lifum við í þessu verndaða umhverfi.“

Ekki rétt að ræða áföll í blöðum

En nú hefur þú sjálfur komið fram í blöðunum, rætt um sjálfsvíg og þöggun. Ertu ekki í ákveðinni mótsögn við sjálfan þig? „Jú, ábyggilega. Ég er oft í mótsögn við sjálfan mig. Ég skrifaði þessa bók og skrifaði þar um þessar tvær sjálfsvígstilraunir mínar. Ég var í sjálfu sér nokkuð sáttur við það og var að berjast gegn þögguninni en ég held að það hafi ekki verið rétt að koma fram í fjölmiðlum og ræða það frekar. Ég var ekki sáttur við það eftir á. Ég vil ekki vera þessi maður sem gerði sjálfsvígstilraunirnar, ég hef unnið úr því. Þetta er hluti af mínu lífi en ég er ekkert á því að ég hefði átt að vera að opinbera það á þann hátt sem ég gerði. Auðvitað er til góðs að opna umræðu en ég er ekki viss um til hversu mikillar blessunar það er fyrir viðkomandi sem gerir það.“

Raunamaður vikunnar

En hvaða skoðun hefurðu þá á netbyltingunum sem tröllriðu hér öllu á síðasta ári, til dæmis gegn þöggun gagnvart kynferðisofbeldi?

„Ég held að þetta hafi verið ansi mikið. Þetta er ofsalega viðkvæmt efni. Allir þurfa að vinna úr sínum málum. En hvað á að birta og hvað geymir maður fyrir sig og talar um í lokuðum hópi? Það er eiginlega alveg sama hvaða skoðun maður hefur á þessu, maður hefur á röngu að standa. Þetta er svo eldfimt. Það er mjög erfitt að stíga fram og gagnrýna þessa umræðu, eins og ég hef gert í grein, þar sem ég var einmitt að ræða lítillega um þessar opinberanir allar. Ég talaði um þessi viðtöl öll í fjölmiðlum. Einstaklingur sem kemur fram og rekur raunir sínar og er mesti raunamaður vikunnar. Systir mín heitin kallaði þetta aumingja vikunnar. Þá kom einhver og talaði um að ég gengi á móti þessari hreyfingu, Út með’a – gegn sjálfsvígum ungra karlmanna. Að ég væri að berjast gegn þessari tjáningu. Svo er alls ekki í sjálfu sér. Ég er fyrst og fremst að reyna að segja að þetta eigi að vera í hófi. Það eigi ekki að vera almenn regla að maður sé alltaf að velta því fyrir sér í hvaða áfalli maður hefur lent. Það er ekki samasemmerki milli þess að hafa lent í einhverju áfalli á lífsleiðinni og að maður hafi einhvern geðsjúkdóm eða greiningu. Eigi að fara á lyf eða í svo og svo mörg viðtöl. Maður verður að horfast í augu við það að maðurinn er lífvera sem hefur ansi mikið þol og getur alveg lifað af allt mögulegt.“

Mörk daðurs og ofbeldis óljós

Óttar segist nefnilega talsmaður þess að ræða sín vandamál en segir mikilvægt að til þess sé fundinn réttur vettvangur. „Það væri útilokað að ég sem geðlæknir væri að tala fyrir þöggun. Við sitjum eins og skriftafeður daginn út og inn og hlustum á vandamál fólks. Auðvitað finnst mér rétt að tala um sín vandamál og það hef ég gert við alls konar fólk í gegnum tíðina. Hvort það eigi alltaf að hlaupa með allt í blöðin, útvarpið eða þvíumlíkt, því er ég ekki alveg sammála lengur.

Óttar segir allt ofbeldi hafa áhrif á fólk, en skilgreiningar ofbeldis hafi breyst í gegnum tíðina.

„Ég veit ekki hversu gott það er þegar stór hluti kvenna og ákveðinn hluti karlmanna segist hafa lent í kynferðislegri áreitni. Spurningin er, hversu alvarleg er þessi áreitni? Nú er það bara einstaklingurinn sem skilgreinir það. Þá eru mörkin milli daðurs og ákveðinna kynferðislegra samskipta kynjanna sem alltaf hafa verið til og áreitni orðin ótrúlega óljós. Þá koma upp öll þessi mál sem síðan er verið að vísa frá dómstólum. Fólk skilgreinir þetta orðið á svo mismunandi vegu.“

Vandinn hlýtur að liggja hjá þeim sem áreitir en ekki þeim sem segja frá slíkri áreitni? „Það liggur hjá báðum í sjálfu sér. Það er ofsalega alvarlegur hlutur að vera ásakaður um kynferðisbrot. Það er mannskemmandi og hefur gríðarleg áhrif á alla framtíð þessa einstaklings hvort sem hann er sakfelldur eða ekki. Að vera úthrópaður kynferðisbrotamaður á Facebook er ótrúlega mikil refsing.“

Er ekki alvarlegra að vera sá sem brotið er á? „Jú, það er mjög alvarlegt. En vandinn er sá að skilningurinn á eðli brotsins er orðinn ólíkur. Það er þar sem við lendum í miklum vandræðum, sem læknar, dómarar, lögfræðingar og bara í samfélaginu.“

Óttar Guðmundsson segir okkur lifa í alltof vernduðu umhverfi í dag. Áður hafi áföll verið hluti af lífinu sjálfu. Vísir/Ernir
Fannst læknisfræðin vélræn

Eftir að hafa starfað fyrir SÁÁ lærði Óttar geðlækningar sem hann starfar við enn í dag, eins og fram hefur komið.

„Þetta var löng og ströng ganga sem einkenndist af miklum valkvíða,“ segir Óttar og hlær. „Jafnvel eftir að ég byrjaði í geðlækningunum hef ég verið að hoppa á önnur leiksvið. Fór um tíma til Þýskalands að læra sögu læknisfræðinnar, fór svo að vinna á líknardeildinni um tíma. Ég hef kannski verið alltaf dálítið órólegur. Ég greini sjálfan mig með valkvíða. Aðrir greina þetta sem ADHD, að geta ekki fest hugann við neitt eitt nema í ákveðinn tíma.“

Hann segir nálgunina innan geðlækninganna hafa kveikt áhuga sinn. „Húmanísk, manneskjuleg nálgun. Að reyna að skilja hvað liggur að baki. Mér fannst læknisfræði vera orðin svo vélræn. Mikið af tækjum, tólum, prófum og öllu mögulegu sem þurfti að rýna í. Stundum var eins og manneskjan bak við allt þetta gleymdist.“

En stundum hefur verið rætt að geðlæknar séu bara í því að ávísa lyfjum? „Það held ég að sé ekki algilt. Frekar en aðrir læknar. Menn eru að reyna ýmislegt annað en að ávísa lyfjum en auðvitað höfum við lyfin. Það er okkar vopnabúr. Lyfin hafa gríðarlega mikil áhrif á geðsjúkdóma. Það er útilokað annað en að viðurkenna það. Ég skrifaði sögu Klepps og þá sá maður svo greinilega þessa ótrúlegu breytingu og byltingu sem verður í aðstöðu geðsjúkra eftir 1952 þegar nýju geðlyfin komu. Í framhaldi af því var hægt að loka flestum geðspít­ölum í Evrópu. Það eru mun færri sem liggja inni á geðdeild á Íslandi í dag heldur en lágu inni 1951.“

Hann segir lyfin ákveðinn lykil að nútímageðlæknisfræði. „Eins og fyrsti sjúklingurinn sem lagðist inn á Klepp, árið 1907, hann lá inni í 48 ár. Hann var með geðklofagreiningu sem gerði það að verkum að það var ekkert hægt að útskrifa hann aftur heim til sín. Þannig að með þessum nýju lyfjum er miklu betra að beita svo líka annarri meðferð á sjúklinga. Samfélagslækningum, hugrænni atferlismeðferð, sálfræðilegum meðferðum og öðru slíku. En svo er auðvitað hinn anginn af þessu líka, að það er náttúrulega talsverð ofnotkun á lyfjum, sérstaklega þessum sem teljast til róandi lyfja. Það hefur samt minnkað mikið og hefur verið gert átak í þeim efnum. Ég held að við þurfum ekkert að vera að hafa áhyggjur af því að við Íslendingar séum að taka of mikið af lyfjum, eins og stundum hefur verið rætt um með þunglyndislyfin. Þó það sé meira gert af því hér en einhvers staðar annars staðar. Það er enginn vafi á því að kvíði er mjög vaxandi vandamál og stundum þarf lyf til að rétta það af.“

Stöðugar katastrófur

Óttar segir kvíðann mikið tilkominn vegna þess samfélags sem við höfum búið okkur.

„Það er svo mikið upplýsingaáreiti. Það er alltaf verið að segja okkur frá öllu sem er að gerast. Öllum þessum hættum sem alls staðar leynast. Það er Facebook, blöðin, alls konar fréttir. Verið að segja okkur frá morðum, nauðgunum, árekstrum, flugslysum. Þetta eru katastrófufréttir sem eru stöðugt fyrir sjónum fólks. Ég held að smám saman verði maður kvíðinn fyrir öllu því sem gæti gerst. Þetta sér maður sérstaklega í sambandi við börnin. Þar eru komnar alveg nýjar greiningar. Öll þessi kvíðnu börn sem voru ekki til í mínu ungdæmi. Eða allavega bar ekkert á þeim. Nú er ótrúlega mikill fjöldi barna með kvíðagreiningu og er á kvíðalyfjum og öllu mögulegu öðru. Það held ég að sé þetta breytta samfélag, þessi ofboðslegi hraði og miklu kröfur. Síðan þessi tilfinning fólks að það lifi í mjög hættulegum heimi þó svo að heimurinn hafi aldrei verið eins hættulaus og hann er í dag. Þegar maður fer að skoða þetta betur þá eru líkurnar á að eitthvað komi fyrir ótrúlega litlar. Öryggissamfélagið er búið að snúast upp í andhverfu sína og farið að skapa óöryggi. Þetta endar sennilega með því að allir fara að ganga með hjálm, alltaf í brynvörðum fötum, af ótta við loftsteina.“

Hvernig er hægt að snúa þessu við? „Það eiginlega ekki hægt. Svo helst þetta í hendur við aukningu í ADHD-greiningum, hjá börnum og unglingum. Og fyrir nokkrum árum vissum við ekki að það væri til eitthvað sem héti ADHD hjá fullorðnum. Þetta er eitthvað sem hefur vaxið ótrúlega hratt á síðustu árum. Það held ég að sé vegna þess að mannsheilinn ræður ekki við þetta áreiti. Það er útilokað að sitja og læra utan að þýskar óreglulegar sagnir og á sama tíma vera með allt í gangi, Facebook, spjallrásir, o.s.frv..“

Hann segist ekki endilega telja ADHD ofgreint, eins og stundum hefur verið fleygt fram. „Þetta eru þakklátir sjúklingar. Maður upplifir æ fleiri einstaklinga sem ráða ekki lengur við hið daglega líf. Athyglisgeislinn á að ná utan um svo mikið. Samfélagsmyndin kallar fram athyglisbrest, aukinn kvíða og ýmislegt annað.“

Kynlíf í Íslendingasögunum

En líkt og áður segir fæst Óttar við ýmislegt annað en geðlækningar. Hann hefur mikinn áhuga á Íslendingasögum og hefur gefið út nokkrar bækur um efnið, sem hann kallar eins konar alþýðuvísindi, því ekki hafi hann bókmenntafræðigráðu. Þá varpar hann nýju ljósi á gamalkunnar persónur úr bókmenntaarfi okkar Íslendinga. Nýjasta bókin heitir Frygð og fornar hetjur og fjallar um kynlíf í Íslendingasögunum. Fyrir nokkrum árum gaf hann út bók um geðgreiningar í Íslendingasögunum, þar sem hann setti m.a. fram þá hugmynd að Hallgerður langbrók hefði verið fórnarlamb sifjaspells og að Gunnar á Hlíðarenda og Njáll hefðu verið samkynhneigðir.

„Þess vegna voru þeir svona miklir vinir og Gunnar svona háður Njáli. Í þessari bók, Frygð og fornar hetjur, fer ég skrefinu lengra og tala um kynlíf og samskipti kynjanna. Bókin hverfist mikið um stöðu kvenna í Íslendingasögunum sem er alveg ömurleg. Konur voru annars flokks borgarar, algjörlega upp á náð og miskunn karlmanna komnar. Þær voru eign föður síns, eiginmannsins eða bræðra. Leg kvenna var eiginlega það sem líf konunnar gekk út á. Karlmenn voru alltaf að versla með konur. Fyrir höfðingja á söguöld var ákveðin eign að eiga dóttur sem væri síðan hægt að gifta öðrum syni höfðingja og styrkja þannig eigið veldi. Þetta gerðu Snorri Sturluson og fleiri.“

Er þetta ekki þriðja eða fjórða bókin þín um kynlíf á ferlinum? Af hverju er kynlíf þér svona mikilvægt?

Óttar hlær. „Það er bara svo ofboðslega stór og mikilvægur þáttur af mannlegri tilveru. Aflið sem heldur manni gangandi. Ég hef alltaf haft áhuga á kynlífi og mannlegum samskiptum. Hvað kynlíf leikur stórt hlutverk í því. Það er þetta með tilgang lífsins...“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.