Innlent

Grímseyingar telja sig svikna af stjórnvöldum

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ferðum með Grímseyjarferjunni hefur ekki verið fjölgað og fargjöld í flugi hafa verið ekki lækkuð þrátt fyrir fyrirheit til Grímseyinga.
Ferðum með Grímseyjarferjunni hefur ekki verið fjölgað og fargjöld í flugi hafa verið ekki lækkuð þrátt fyrir fyrirheit til Grímseyinga. Vísir/Anton Brink
Íbúar í Grímsey eru orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi í samgöngumálum eyjarinnar. Ekkert bóli á efndum ríkisstjórnar á gefnum loforðum um lækkað fargjald á flugi til heimamanna.

„Það var samþykkt að það yrði lækkað fargjald til heimamanna,“ segir Jóhannes Gísli Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar.

„Við höfum engin svör fengið við því hvenær og hvernig átti að framkvæma þessi loforð, við erum orðin langþreytt en höldum áfram að ýta á eftir aðgerðum,“ segir hann.

Að sögn Jóhannesar er lækkun fargjalda og fjölgun ferða ferjunnar mikið hagsmunamál fyrir íbúa í Grímsey.

„Það segir sig sjálft, fyrir fjölskyldu kostar það álíka mikið að fara úr Grímsey til meginlandsins og að fara í borgarferð til Evrópu,“ segir Jóhannes og bendir á að ýmsa þjónustu sé stundum bráðnauðsynlegt að sækja utan eyjarinnar, svo sem ýmsa sérhæfða læknisþjónustu og annað. „Þetta er okkar þjóðvegur hér á milli og bættar samgöngur eru brýnustu mál okkar.“

Starfshópur sem innanríkisráðherra skipaði árið 2014 um að kanna opinbera gjaldtöku í innanlandsflugi og mögulegar leiðir til að lækka farmiðaverð skilaði skýrslu í fyrra.

Í niðurstöðum starfshópsins er bent á að niðurfelling farþega- og lendingargjalda, svo og niðurfelling virðisaukaskatts á aðföngum í innanlandsflugi, myndi skila að meðaltali 1.700 króna verðlækkun á hverjum fluglegg.

Þá bendir hópurinn á þá leið að bjóða út flugleiðir og skilgreina leyfilegt hámarksverð. Í skýrslunni kom fram að komið hefði til umræðu að bjóða út allar flugleiðir innanlands og skilgreina í útboði leyfilegt hámarksverð.

Sex flugleiðir eru ríkisstyrktar á grundvelli markaðsbrests: Bíldudalur, Gjögur, Grímsey, Þórshöfn, Vopnafjörður og Höfn.

Eftir útgáfu skýrslunnar í febrúar á síðasta ári sagði innanríkisráðherra stjórnvöld ætla að endurskoða álögur og leita leiða til að gera flugið ódýrara.

Jóhannes segir Grímseyinga ekkert hafa heyrt eftir að starfshópur innanríkisráðherra lauk starfi sínu.

„Við höfum heldur ekki heyrt neitt um fjölgun ferða með ferjunni. Það var búið að gefa það út að það ætti að fjölga þeim um 52 ferðir á ári, um eina ferð í hverri viku, þetta var gefið út síðasta haust og fólk hélt að það ætti að koma fljótlega í gegn. Það kom samþykkt frá ríkisstjórn en einhvers staðar strandar það greinilega.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×