Enski boltinn

Liðsfélagi Katrínar með MS-sjúkdóminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashleigh Mills og Katrín Ómarsdóttir.
Ashleigh Mills og Katrín Ómarsdóttir. Vísir/Getty
Liðsfélagi landsliðskonunnar Katrínar Ómarsdóttir hefur þurft að leggja knattspyrnuskóna á hilluna þrátt fyrir að vera aðeins tvítug að aldri.

Ashleigh Mills er með MS-sjúkdóminn sem er taugasjúkdómur þar sem taugafrumur í heila og mænu skemmast. Engin lækning er til við sjúkdómnum þótt til séu lyf sem geta hægt á framgangi hans eða haldið honum niðri. BBC segir frá þessu.

Katrín og Ashleigh Mills áttu að spila saman á miðju Doncaster Rovers Belles í ensku úrvalsdeildinni í ár en ekkert verður af því.

Ashleigh Mills er fyrrum unglingalandsliðskona og hefur verið hjá Doncaster Rovers Belles síðan 2013.

„Ég hef reynt svo mikið að koma til baka en fæturnir hlýða ekki," sagði Ashleigh Mills á Twitter. Hún lék fjóra leiki með liðinu á síðasta tímabili þegar Doncaster Rovers vann sér sæti í úrvalsdeildinni.

„Því miður er ekki hægt að sigrast á þessum sjúkdómi og hann hefur rænt drauminum mínum," skrifaði Ashleigh Mills ennfremur.

Katrín kom til Doncaster Rovers í vetur eftir að hafa spilað í þrjú tímabil með Liverpool.

„Það er sorglegt að sjá ungan leikmann með alla hæfileikana sem Ash hefur, þurfa að hætta að spila fótbolta," sagði Glen Harris, þjálfari Doncaster Rovers.

„Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna með Ash. Hún mætir alltaf með bros á vör og jafnvel þótt hún mæti ekki alltaf í réttu græjunum," sagði Glen Harris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×