Enski boltinn

Stærsta stund ferilsins hjá stjóra Watford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Watford fagna hér sigrinum á Arsenal í gær.
Leikmenn Watford fagna hér sigrinum á Arsenal í gær. Vísir/Getty
Quique Sanchez Flores, knattspyrnustjóri Watford, var kátur í gær eftir að lið hans endaði þriggja ára sigurgöngu Arsenal í ensku bikarkeppninni með 2-1 sigri á Emirates-leikvanginum.

Þetta var fyrsta bikartap Arsenal-liðsins í 37 mánuði en sigurinn var enn ein viðbótin við frábært tímabil hjá nýliðum Watford.

Watford er nú komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar á Wembley og er ennfremur í fjórtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Við reynum að njóta þessarar stundar, að spila saman í þessu liði og fá að upplifa þetta ferðalag. Við fáum núna að spila undanúrslitaleik á Wembley," sagði Quique Sanchez Flores við BBC.

„Þetta er stórkostlegt tímabil fyrir Watford, fyrir leikmenn jafnt sem stuðningsmenn. Sigurinn á Arsenal tel ég vera stærstu stundina á mínum stjóraferli," sagði Quique Sanchez Flores.

Watford var aðeins með boltann 29 prósent leiktímans og slapp með skrekkinn undir lokin en hélt út og leikmenn liðsins fögnuðu innilega sæti á Wembley.

Quique Sanchez Flores kom liðinu ekki upp í úrvalsdeildina heldur tók við liðinu síðasta sumar af Slavisa Jokanovic. Hann varð þá fimmti maðurinn á tólf mánuðum til að setjast í stjórastólinn hjá Watford.  

Flores hefur áður þjálfað Getafe, Valencia, Benfica og Atlético Madrid en undir hans stjórn vann Atlético-liðið Evrópudeildina 2010. Hann hefur því talsverða reynslu af þjálfun og því athyglisverð ummæli um að sigurinn í gær hafi verið hans stærsta stund á ferlinum.

Miðað við endalaus óvænt úrslit í ensku bikarkeppninni á þessu tímabili má allt eins búast við því að Watford gæti farið enn lengra og jafnvel unnið enska bikarinn í fyrsta sinn í sögu félagsins en liðið tapaði eina bikarúrslitaleiknum sínum vorið 1984.

Quique Sanchez Flores, knattspyrnustjóri Watford.Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×