Enski boltinn

Ramsey: Ég er hneykslaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger er ekki sá vinsælasti á Emirates-vellinum.
Arsene Wenger er ekki sá vinsælasti á Emirates-vellinum. vísir/getty
Aaron Ramsey, miðjumaður Arsenal, átti ekki orð þegar hann heyrði að sumir stuðningsmenn liðsins mættu með borða á leik liðsins gegn Hull í bikarnum í síðustu viku sem á stóð að Arsene Wenger ætti að segja af sér.

Wenger hefur legið undir mikilli gagnrýni undanfarnar vikur, en liðið vann ekki í fjórum leikjum í röð þar til það vann Hull, 4-0, í endurteknum bikarleik í síðustu viku.

Arsenal tapaði fyrir Barcelona í Meistaradeildinni á heimavelli, Manchester United í deildinni á útivelli og svo heima gegn Swansea. Wenger gerði svo endanlega allt vitlaust með að tapa fyrir Watford í átta liða úrslitum bikarsins í gær en það var líklega eini möguleiki Arsenal á titli í ár.

„Ég er hneykslaður. Ég sá ekki borðann í leiknum því ég fór út af meiddur en strákarnir sögðu mér frá þessu og þetta hefur svo sem komið fyrir aftur. Ég er hneykslaður að vita af stuðningsmanni Arsenal sem hefur fyrir því að mæta með svona borða á leik,“ segir Ramsey í viðtali við Sky Sports.

Leicester getur í kvöld með sigri á Newcastle náð ellefu stiga forskoti á Arsenal í ensku úrvalsdeildinnni en Arsenal á næst erfiðan útileik gegn Everton eftir leik gegn Barcelona í Meistaradeildinni.

„Það sjá allir hvað margir stjórar eru reknir nú til dags. Nokkur slæm úrslit og menn eru komnir undir pressu. Wenger hefur gengið í gegnum þetta áður og ég veit að hann stendur sig núna,“ segir Aaron Ramsey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×