Innlent

Hætta á örorku hjá börnum sem bíða

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahús við Dalbraut. Stefnt er að því útrýma biðlistum á næstu fjórum árum á stofnuninni.
BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahús við Dalbraut. Stefnt er að því útrýma biðlistum á næstu fjórum árum á stofnuninni. Vísir/ÞÖK
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir bresti í geðheilbrigðisþjónustu til barna. Brestir í þjónustunni séu viðvarandi. Ríkisendurskoðun kallar eftir skýrari verka- og ábyrgðarskiptingu þjónustuaðila og aukinni samhæfingu samvinnu og samfellu þjónustunnar.

Veruleg þörf sé á að fjölga meðferðarúrræðum og tryggja aðgengi að þjónustunni óháð búsetu. Alvarlegustu niðurstöður Ríkisendurskoðunar eru löng bið eftir þjónustu einstakra aðila sem veita börnum mikilvæga geðheilbrigðisþjónustu.

Í nóvember 2015 biðu rúmlega 390 börn þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar. Þar af voru 90 á forgangslistum og rúmlega 300 á almennum biðlista. Biðtími þeirra getur verið allt frá tveimur mánuðum til rúmlega eins árs. Í október 2015 voru 120 börn og unglingar á biðlista Barna- og unglingageðdeildannar. Meirihluta þeirra er sinnt innan sex mánaða en í sumum tilfellum getur biðtíminn orðið allt að 18 mánuðir.

208 börn biðu eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins í desember 2015 og var áætlaður biðtími allt að 14 mánuðir.

Ríkisendurskoðun bendir á lögbundnar skyldur ríkisins og að biðin stefni hagsmunum og velferð barnanna í tvísýnu og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×