Innlent

Íslenskar konur lifa almennt heilsusamlegra lífi en íslenskir karlar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar neyta fleiri konur en karlar ávaxta og grænmetis tvisvar á dag eða oftar.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar neyta fleiri konur en karlar ávaxta og grænmetis tvisvar á dag eða oftar. vísir/andri marinó
Íslenskir karlmenn drekka sig að öllu jöfnu oftar en ölvaða en íslenskar konur og er ölvunardrykkja talsverð á meðal landsmanna, ekki síst á meðal fólks í aldurshópnum 18 til 24 ára.

Þannig segjast 52 prósent karla í þeim aldurshópi drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar og 45 prósent kvenna. Eftir því sem fólk eldist dregur hins vegar úr drykkjunni, þó hún sé enn ívið meiri hjá körlunum. Hlutfall þeirra sem reykja heldur svo áfram að lækka en nú segjast 10 prósent landsmanna reykja daglega samanborið við 14 prósent árið 2014.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi Landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, en þar eru raktar niðurstöður úr umfangsmikilli könnun sem Capacent gerði fyrir embættið á áhrifaþáttum heilbrigðis.

Markmið könnunarinnar er að fylgjast með heilsuhegðun Íslendinga og þróun tiltekinna áhrifaþátta, svo sem notkun áfengis og tóbaks, hreyfingar og mataræðis. Könnunin fór fram dagana 26. nóvember til 15. desember 2015. Úrtakið var 2.819 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára ára og eldri, sem valdir voru af handahófi. Þátttökuhlutfall var 61%.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar neyta fleiri konur en karlar ávaxta og grænmetis tvisvar á dag eða oftar. Þannig segjast 31 prósent kvenna borða ávexti tvisvar á dag eða oftar en 19 prósent karla.

28 prósent kvenna segjast neyta grænmetis tvisvar á dag eða oftar á móti 16 prósentum karla. Þá drekkur um fjórðungur karla sykraða gosdrykki fjórum sinnum í viku eða oftar en 12 prósent kvenna.

Meirihluti Íslendinga telur sig vera hamingjusama og almennt telja landsmenn andlega heilsu sína góða. Það er hins vegar áhyggjuefni að mati landslæknis hversu stór hluti karla fær að jafnaði of lítinn svefn auk þess sem ástæða er til að hafa áhyggjur af því að um þriðjungur kvenna segist oft eða mjög oft finna fyrir mikilli streitu í daglega lífinu.

Þá er það jafnframt áhyggjuefni að mati embættisins að umtalsverður hluti landsmanna hreyfir sig lítið sem ekkert en tæplega fimmtungur kvenna segist ekki hreyfa sig og tæplega fjórðungur karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×