Innlent

Skipt um flísar í Sundhöll Selfoss fyrir fjórar milljónir vegna fjölda óhappa

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjöldi gesta Sundhallar Selfoss hefur dottið síðustu vikur og jafnvel brotið sig á hálum flísum.
Fjöldi gesta Sundhallar Selfoss hefur dottið síðustu vikur og jafnvel brotið sig á hálum flísum. Vísir/MHH
Fjöldi gesta Sundhallar Selfoss hefur dottið síðustu vikur og jafnvel brotið sig á hálum flísum í nýrri byggingu við sundlaugina sem JÁVERK byggði. Nú hefur verið ákveðið að skipta út flísunum.

„Það er sameiginlegt mat Sveitarfélagsins Árborgar og JÁVERKS að við þetta yrði ekki unað og því hefur verið leitað leiða til að auka öryggi þeirra sem fara þarna um,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar.

Að sögn Ástu verða flísar fjarlægðar af því svæði sem sundlaugargestir ganga um frá búningsklefa að innilaugum og að útgönguleið að útisvæði. Í staðinn verður sett svokallað „PlayTop“ gúmmíefni, sem er víða notað við sundlaugar og hefur gefið góða raun.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar.Vísir/MHH
Jafnframt verður vatnshalli aukinn þannig að vatn liggur síður á gólfum. Kostnaður við verkið er áætlaður um fjórar milljónir króna en farið verður í það á næstu dögum.​

Öryggi sundlaugargesta í fyrrirúmi 

Ásta segir að núverandi flísar uppfylli staðla um hálkuvarnir á sundlaugarsvæðum, en þrátt fyrir það hafa gestir fallið og meiðst. Sundhöllinni verður ekki lokað á meðan á framkvæmdum stendur og verður reynt að láta þessar breytingar raska starfseminni sem minnst. 

„Við vonumst til að sundlaugargestir sýni því skilning að þurfa að nota útiklefa eða ganga óhefðbundna leið á milli búningsklefa og lauga á meðan unnið verður að breytingum,“ segir Ásta. „Litla innilaugin og gufuklefi  verða lokuð á meðan á framkvæmdum stendur, en þær munu hefjast um leið og nýja gólfefnið verður tilbúið til afgreiðslu og standa í um tvær vikur.“

Ásta segir það sameiginlega ákvörðun sveitarfélagsins og JÁVERKS að ráðast í þessar breytingar með öryggi sundlaugargesta í fyrirrúmi. Aðilarnir muni skipta kostnaði við breytingarnar á milli sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×