Erlent

Leiðtogafundur ESB: Komið að úrslitastund varðandi samninginn við Breta

Atli ísleifsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafa átt fundi í vikunni.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafa átt fundi í vikunni. Vísir/AFP
Tveggja daga leiðtogafundur Evrópusambandsins hefst í Brussel í dag þar sem samningur um breytta aðildarskilmála Bretlands verður meðal annars til umræðu.

BBC hefur eftir fulltrúa Bretlandsstjórnar að komið sé að úrslitastund í málinu. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vonast til að ná hagstæðum samningi sem síðar yrði lagður í dóm breskra kjósenda um hvort Bretland eigi að segja skilið við ESB eður ei.

Samningaviðræður hafa staðið mánuðum saman og hefur Cameron heimsótt tuttugu aðildarríki til að sannfæra aðra leiðtoga um nauðsyn breytinganna.

Leiðtogarnir eiga ekki annarra kosta völ

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði í samtali við BBC að leiðtogar aðildarríkjanna eigi ekki annarra kosta völ en að samþykkja samninginn.

Andstæðingar ESB-aðildar Breta hafa sagt samninginn ekki ganga nægilega langt, en stuðningsmenn hafa lýst yfir ánægju með hann.

Samningurinn snýr meðal annars að því að Bretar losna undan þeirri kröfu að unnið skuli að sífellt nánara sambandi (e. ever closer union), breytingum á vinnumarkaðsréttindum fólks sem kemur til Bretlands, auk þess að Bretar hafa náð fram svokölluðum „neyðarhemli“ í flóttamannamálunum (e. emergency welfare brake), sem snýr að aðgengi flóttafólks að breska velferðarkerfinu.

Á flóku stigi

Tusk segir viðræður nú vera á mjög flóknu stigi og að það myndi fela í sér mikinn ósigur, takist ekki að ná samkomulagi, en landfræðipólitískur sigur fyrir alla þá sem sækjast eftir því að ná fram klofningi í álfunni.

Leiðtogarnir munu koma saman klukkan 15 síðar í dag og verður samningurinn við Breta til umræðu klukkan 16:45. Yfir kvöldverði verður svo rætt um flóttamannavandann sem ESB stendur frammi fyrir. Í fyrramálið verður svo svokallaður „enskur morgunverður“, hafi ekki náðst samkomulag um samninginn við Breta í dag, þar sem reynt verður til þrautar að ná fram samkomulagi.


Tengdar fréttir

Óttast upplausn Evrópusambandsins

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, óttast upplausn sambandsins vegna mögulegrar brottgöngu Breta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×