Erlent

Eiríkur Bergmann um samningdrög Bretlands og ESB: „Þetta er klassísk evrópsk málamiðlun“

Atli Ísleifsson skrifar
Eiríkur Bergmnn telur niðurstöðuna vera í takt við það sem Bretar og David Cameron gátu búist við.
Eiríkur Bergmnn telur niðurstöðuna vera í takt við það sem Bretar og David Cameron gátu búist við. Vísir/AFP/Hörður Sveinsson
„Þetta er klassísk evrópsk málamiðlun,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor um þau samningsdrög um breytingar á sambandi Bretlands og Evrópusambandsins sem kynnt voru á þriðjudaginn.

Hann segir að svo virðist sem David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafi náð árangri í velflestum þeim þáttum sem hann lagði upp með til að endursemja um stöðu Bretlands í ESB. Hann hafi þó hvergi komist alla leið með kröfur sínar, þar sem í öllum tilvikum séu gerðar málamiðlanir.

Niðurstaðan í takt við það sem Cameron gat búist við

Eiríkur segir að breska stjórnkerfið þekki mæta vel hvernig Evrópusambandið virkar. „Þetta er málamiðlunarfabrikka. Þegar Cameron leggur af stað, veit hann það að maður setur ekki fram einhverjar úrslitakröfur sem þú annað hvort nærð fram eða ekki. Hann veit að maður setur fram markmið sem þú þarft síðan að semja um.

Ég held að þessi niðurstaða sé í takt við það sem Bretar og Cameron gátu búist við. Þess ber þó að geta að þetta eru bara samningsdrög sem Cameron nær við forseta leiðtogaráðsins og eiga enn eftir að fara fyrir leiðtogaráðið sjálft. Þar eru það líklegast Pólland og Ungverjaland sem einna helst munu setja sig upp á móti samkomulaginu.“

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.Vísir/EPA
Deilt um vinnumarkaðsréttindi og flóttamannamál

Eiríkur segir mesta styrinn hafa staðið um vinnumarkaðsréttindi sem fólk hefur á milli landa í Evrópu. „Bretar hafa haft horn í síðu þess að fólk geti farið á milli ESB-ríkja og strax haft réttindi til atvinnuleysisbóta, framfærslu og svo framvegis. Þeir hafa viljað koma á frestun slíkra réttinda í fjögur ár.

Niðurstaðan er sú að Bretar munu geta takmarkað réttindin í allt að fjögur ár. Það er þó ekki fyllilega útfært hvernig það skuli gert. Réttindin eru því ekki afturkölluð heldur takmörkuð. Mesta breytingin er kannski sú að framfærslustuðningur sem fólk hefur fengið hefur miðast við efnahagsstöðu í Bretlandi, það er þar sem verkamaðurinn er, en Bretar hafa fengið það í gegn að það muni miðast við efnahagsstöðu í heimalandinu. Þar er framfærsla yfirleitt mun lægri.“

Hann segir að Bretar hafi einnig náð fram svokölluðum „neyðarhemli“ í flóttamannamálunum (e. emergency welfare brake), sem snýr að aðgengi flóttafólks að breska velferðarkerfinu. Þó sé óljóst að svo stöddu hvað þetta samkomulag feli í sér.

Sífellt nánara samband ei meir

Eiríkur segir að eitt mikilvægasta atriðið í huga Breta hafa snúið að samkomulagi sambandsins um að skuldbinda sig til að stuðla að sífellt nánara sambandi, eða „ever closer union“.

„Þetta er í sáttmálanum, en Bretar vilja losna undan þeirri kröfu þannig að hún nái ekki til Bretlands. Þeir virðast ætla að ná því í gegn. Annað atriði er að ESB hefur hingað til litið svo á að öll aðildarríkin muni í fyllingu tímans taka upp evruna. Það er nú breytt og Cameron hefur lagt mikla áherslu á að ESB hætti að líta á evruna sem eina gjaldmiðil sambandsins og að þeir séu fleiri.“

Leiðtogaráð ESB kemur næst saman 18. febrúar þar sem samningurinn við Bretland verður til umræðu.Vísir/AFP
Viðauki við aðildarsamning Bretlands

Að sögn Eiríks eru breytingarnar sem nú sé verið að semja um í raun vera grundvallarbreytingar á Evrópusamstarfinu.

„Þetta eru samt ekki prinsippbreytingar á stofnsáttmálanum enda veit Cameron að það er flóknara mál. Cameron vill að þessar breytingar verði hluti af sáttmála Evrópusambandsins. Eins og þetta stendur núna verður þetta hins vegar samningur leiðtogaráðsins við Bretland.

Sáttmálar sambandsins eru ekki bara sáttmálar sem smíðaðir eru á ríkjaráðstefnum og kenndir eru við borgir líkt og Maastricht, Amsterdam og Lissabon. Aðildarsáttmálar aðildarríkja hafa sömu lagalegu stöðu. Þetta yrði þá bara hluti af aðildarsáttmála Bretlands við Evrópusambandið. Þannig eru Danir með aðildarsáttmála sem fullur er af undanþágum.

Öll aðildarríki sambandsins hafa samið um undanþágur frá lögum og reglum sambandsins. Þetta verður þá einfaldlega einn slíkur samningur. Evrópulög eru samansafn samninga, ekki eitt plagg. Þó að Cameron hafi farið fram á að breytingarnar sem samið er um verði hluti af Lissabon-sáttmálanum þá sýnist mér það ekki verða gert að einhverju úrslitaatriði, heldur verði þetta einfaldlega viðauki við aðildarsáttmála Bretlands, ef að líkum lætur.“

Fyrirsjáanleg viðbrögð

Eiríkur segir að viðbrögðin við samningsdrögin hafi verið fyrirsjáanleg í Bretlandi. „Aðildarsinnar hafa fagnað því að Cameron hafi náð bráðabirgðasamningi um grundvallarbreytingar á stöðu Bretlands, en útgöngusinnar segja þetta rýrt í roðinu og mun minna en lagt var upp með. Þetta liggur eftir klassískum pólitískum línum í Bretlandi.“

Hann segir að það sem muni breytast nú – að því gefnu að þetta fáist samþykkt á leiðtogafundi sambandsins síðar í mánuðinum sem sé alls ekki sjálfsagt – þá fari þunginn í málflutningi Íhaldsflokksins að breytast.

„Forystumenn flokksins munu hvetja Breta til að samþykkja samninginn um áframhaldandi veru Bretlands í ESB. Þeir þá hætta að tala gegn ESB og tala fyrir því. Það breytir stöðunni verulega, sérstaklega í ríki þar sem stjórnmálamenningin er jafn rótgróin og hún er í Bretlandi.“

Framundan er mikil barátta um hvort Bretland eigi áfram að vera aðili að Evrópusambandinu.Vísir/AFP
Leikur sama leik og Thatcher

Eiríkur segir Cameron í raun vera að endurtaka það sem breski forsætisráðherrann Margaret Thatcher gerði á fyrri hluta níunda áratugarins, þegar hún samdi við sambandið um landbúnaðarafslátt Breta (UK rebate).

„Evrópusambandið greiðir svo mikið fé til landbúnaðar og þar sem landbúnaður er lítill í Bretlandi, töldu Bretar sig hlunnfarna. Thatcher samdi þá um sérkjör til Breta á þeim grunni og setti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var samþykkt. Cameron er í raun að leika þennan sama leik Thatcher.“

Þjóðaratkvæðagreiðsla strax í júní?

Forsætisráðherrann breski hafði áður lofað heitið því að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á sambandi ESB fyrir árslok 2017. Nú virðast hins vegar góðar líkur á að sú atkvæðagreiðsla muni fara fram nokkru áður en sá frestur rennur út.

„Ef þetta mun ganga svona snuðrulaust fyrir sig, sem er þó á engan hátt öruggt þar sem málið á eftir að fara fyrir leiðtogaráðið, þá er þessi niðurstaða mun fyrr á ferðinni en búist var við. Menn hafa talað um að þjóðaratkvæðagreiðslan kunni að fara fram samhliða sveitarstjórnarkjöri í júní. Mér finnst þó ólíklegt að svo fari,“ segir Eiríkur.


Tengdar fréttir

Cameron fær neyðarhemil frá ESB

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, kynnti í gær viðbrögð við kröfum Breta, sem vilja ná fram breytingum á Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×