Erlent

Bakslag fyrir nýjar ESB-tillögur Breta

Óli Kr. Ármannsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Breta (til vinstri), fundaði í gær með Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins (til hægri), og leiðtogum annarra stjórnmálahópa í Evrópuþinginu í Brussel í Belgíu.
David Cameron, forsætisráðherra Breta (til vinstri), fundaði í gær með Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins (til hægri), og leiðtogum annarra stjórnmálahópa í Evrópuþinginu í Brussel í Belgíu. Fréttablaðið/EPA
Ekki er hægt að tryggja stuðning Evrópuþingsins við breyttan samning Bretlands við Evrópusambandið. Þetta kom fram í máli Martins Schulz, forseta þingsins, þegar hann fundaði með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í Brussel í gær.

Viðbrögð Schulz eru sögð bakslag fyrir Cameron sem staddur er í Brussel til að tryggja samþykki við nýjan samning um breytingar á aðildarsamkomulagi Bretlands og Evrópusambandsins (ESB). Auk þess að funda með Schulz, sem er þýskur sósíaldemókrati, átti hann líka fundi með leiðtogum annarra hópa í þinginu.

Fram kemur í umfjöllun Guardian að Cameron hafi viljað fá tryggingu fyrir því að Evrópuþingið myndi ekki reyna að gera breytingar á uppkasti að samkomulagi sem ganga á frá á leiðtogafundi ESB á morgun, fimmtudag, áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur í Bretlandi sem gæti skorið úr um áframhaldandi veru landsins í sambandinu. 

„Ferð forsætisráðherrans til fundar við Evrópuþingið endurspeglar áhyggjur af því að þingið kunni að vera ófyrirsjáanlegt í aðkomu sinni að viðkvæmum endursamningum, en þingið þarf að hleypa í gegn breytingum á löggjöf ESB til þess að hliðra til fyrir kröfum Breta um þak á greiðslur vegna félagslegs stuðnings við innflytjendur frá sambandinu,“ segir þar.

Þá kemur fram í umfjöllun BBC, breska ríkisútvarpsins, að Cameron hafi líka fundað með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Junker hafi áður sagt að ekki sé neitt „plan B“ til staðar. Slíkt myndi gefa í skyn að framkvæmdastjórnin teldi raunhæfan möguleika á því að Bretland gengi úr sambandinu.

„Ég fer ekki út í nein smáatriði á plani B, vegna þess að það er engin slík áætlun til. Við erum með plan A. Bretland verður áfram í Evrópusambandinu sem uppbyggilegur og virkur þátttakandi,“ hefur BBC eftir Juncker.

Á sama tíma segir Donald Tusk, forseti Leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem hefur umsjón með endursamningum Bretlands, að viðræðurnar um samningsdrögin séu „viðkvæmar“. Í byrjun vikunnar varaði hann við því að samningar um kröfur Bretlands væru á „tvísýnum stað“ og að raunveruleg hætta væri á að Evrópusamstarfið brotnaði upp.

Á meðan Cameron fundaði í Brussel blésu þjóðarleiðtogar Póllands, Ungverjalands, Slóvakíu og Tékklands til smærri leiðtogafundar í Prag í Tékklandi til að móta sameiginlega afstöðu til endursamnings Breta.

„Á sama tíma og mjög óvenjulegt væri fyrir þingið að ganga gegn ákvörðunum sem leiðtogar ESB-ríkjanna 28 hafa tekið, mun afstaða þingsins nær örugglega þýða að Cameron kemur ekki í gegn fyrirhugðum breytingum á velferðarkerfinu fyrr en mun síðar en hann hefði vonað, og löngu eftir að Bretar hafa greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild.“

Eftir fund Camerons og Schulz í gær sagði forseti þingsins að þingið myndi ekki stöðva framgang ákvarðana sem leiðtogar Evrópusambandslandanna hefðu tekið, en lagði um leið áherslu á mikilvægi þinglegu meðferðarinnar. „Ég get enga tryggingu gefið fyrir framtíðarlöggjöf,“ sagði hann. „Það getur engin ríkisstjórn snúið sér að þinginu og sagt: Hér er tillaga okkar, er hægt að tryggja niðurstöðuna?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×