Innlent

Hrottaleg árás á Selfossi fyrir dóm: Fjölskyldu manns hótað lífláti ef hann tilkynnti atvikið

Birgir Olgeirsson skrifar
Árásin er sögð hafa átt sér stað á Selfossi 22. september árið 2014.
Árásin er sögð hafa átt sér stað á Selfossi 22. september árið 2014. Vísir
Þrír menn eru ákærðir af ríkissaksóknara fyrir rán og hlutdeild að ráni með því að hafa beitt karlmann ofbeldi og hótunum í því skyni að hafa af honum verðmæti í íbúð á Selfoss þann 22. september í fyrra.

Ásamt því að beita hann grófu ofbeldi hótuðu þeir að skera fingur af manninum ef hann myndi ekki láta verðmætin af hendi og var fjölskyldu hans hótað lífláti ef hann tilkynnti atvikið til lögreglu.

Eru tveir af þremur ákærðum sakaðir um að slá manninn ítrekað í andlitið, sparka í hægri síðu þess og skalla hann í höfuðið. Var maðurinn krafin um að tæma vasa sína á meðan þeir héldu hönd mannsins fastri á borði og beindu hníf að hönd hans.

Ákærðu leituðu að verðmætum í íbúð mannsins og höfðu á brott með sér farsíma af gerðinni Nokia, tíu þúsund krónur í reiðufé, lykla, örorkuskírteini mannsins, debetkort, lyf, fatnað og tölvu og kröfðu fórnarlambið um pin-númer debetkortsins áður en þeir yfirgáfu vettvangi, að því er fram kemur í ákæru.

Þriðji maðurinn er ákærður fyrir að veita hinum tveimur liðsinni í brotinu með veru sinni á vettvangi og þátttöku í leit að verðmætum og með því að hafa þau á brott með sér af vettvangi.

Við árásina hlaut maðurinn mar og eymsli neðan við hægra auga, mar yfir vinstra kinnbeini, sár á enni, sprungna efri vör og bólgu og eymsli á hægra handabaki. Fyrirtaka í málinu fer fram í Héraðsdómi Suðurlands á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×