Innlent

Handbók um mataræði aldraðra á vef landlæknis

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Þörf fyrir vítamín, steinefni, prótein og trefjaefni minnkar ekki þótt fólk eldist.
Þörf fyrir vítamín, steinefni, prótein og trefjaefni minnkar ekki þótt fólk eldist. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Í handbók um mataræði aldraðra, sem lesa má á vef landlæknis, er bent á að í ráðleggingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) um fæði aldraðra sem og í Evrópuverkefninu ­Healthy ageing hafi verið lögð rík áhersla á að minnka salt og harða fitu í fæðu aldraðra og auka hlut grænmetis og ávaxta sem og hlut annarra trefjaríkra matvara.

Öldruðum, sem eru við góða heilsu og hreyfa sig daglega, hæfir yfirleitt almennt fæði þar sem tekið er mið af ráðleggingum Lýðheilsustöðvar - manneldisráðs. Hætta á næringarskorti eykst hins vegar ef matarlyst minnkar, hvort heldur er vegna líkamlegra eða geðrænna sjúkdóma. Við slíkar aðstæður þarf að gera sérstakar og oft einstaklingsbundnar ráðstafanir varðandi fæðið.

Orkuþörf minnkar með aldrinum, aðallega vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar. Þörf fyrir vítamín, steinefni, prótein og trefjaefni minnkar hins vegar ekki að sama skapi. Því þurfa öll næringarefni að vera til staðar í minni fæðuskömmtum.

Þar sem orkuþörfin minnkar með aldrinum er hætta á að fólk þyngist um of sé þess ekki gætt að minnka neyslu í samræmi við þörf. Ofþyngd og offita á efri árum eykur mjög líkur á sykursýki af gerð 2, of háum blóðþrýstingi og stoðkerfissjúkdómum auk annarra fylgikvilla og því er mikið í húfi að líkamsþyngd sé haldið í skefjum. Fituríkt fæði og kyrrsetur eru öðru fremur ávísun á fitusöfnun.

Dagleg miðlungserfið hreyfing í 30 mínútur, t.d. gönguferðir eða leikfimi, ásamt hæfilegri fitu og skynsamlegu fæðuvali skipta megin­máli til að koma í veg fyrir offitu á efri árum. Á hinn bóginn minnkar oft matarlyst aldraðra, þeir léttast meira en góðu hófi gegnir og við það aukast líkur á mörgum sjúkdómum, að því er segir í handbókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×