Innlent

Maður sem er sakaður um að brjóta gegn stúlku þarf að víkja úr dómsal þegar hún gefur skýrslu

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um að maðurinn verði að víkja úr dómsal með stúlkan gefur skýrslu.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um að maðurinn verði að víkja úr dómsal með stúlkan gefur skýrslu. Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands þess efnis að maður sem sakaður er um að hafa nauðgað stúlku þegar hún var sextán ára skuli víkja úr dómsal á meðan hún hefur skýrslu við aðalmeðferð.

Í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands kemur fram að stúlkan telur að nærvera mannsins við skýrslugjöfina yrði henni mjög íþyngjandi og gæti haft áhrif á framburð hennar. Hefur réttargæslumaður hennar lagt fram greinargerð uppeldis- og afbrotafræðings hjá Barnahúsi, sem hefur haft brotaþola til meðferðar vegna andlegrar vanlíðunar sem rekja megi til ákæruefnisins.

Í greinargerðinni kemur fram að stúlkan óttist mjög að sjá manninn og telji það verulega íþyngjandi fyrir sig.

Í greinargerðinni segir orðrétt: „Eykur það enn frekar á vanlíðan og streitu þegar ákærði er viðstaddur skýrslugjöfina. Neikvæð áhrif í slíkum aðstæðum eru tvíþætt. Annars vegar er hætt við því að stúlkan geti ekki tjáð sig jafn vel um meint brot vegna kvíða og streitu yfir nærveru ákærða og getur það haft áhrif á framburð stúlkunnar sem verður að teljast mikilvægt sönnunargagn í málum sem þessum. Hins vegar er hætt við því að íþyngjandi aðstæður sem þessar geti haft mjög neikvæð áhrif á líðan stúlkunnar og ollið bakslagi sérstaklega hvað varðar áfallastreituröskun ...“

Samkvæmt ákærunni er manninum gefið að sök að hafa nauðgað stúlkunni, sem þá var 16 ára, og brotið gegn barnaverndarlögum með því að hafa haft samræði við hana gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar og með þessu sýnt af sér ósiðlegt og ruddalegt athæfi.

Í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands kemur fram að þess verður gætt við aðalmeðferð að maðurinn geti fylgst með skýrslutökunni af brotaþola um leið og hún fer fram og spurningar verði lagðar fyrir brotaþola eftir því sem manninum þykir tilefni til. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×