Innlent

Tugir leitarmanna kemba Ölfusá og nágrenni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Leitarmenn hafa meðal annars notast við brúður sem varpað hefur verið í Ölfusá.
Leitarmenn hafa meðal annars notast við brúður sem varpað hefur verið í Ölfusá. vísir/magnús hlynur
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu í dag leita manns er óttast er að hafi farið í Ölfusá þann 26. desember síðastliðinn. Að sögn Ólafar Snæhólm, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er ætlunin í dag að leita árbakkana frá Selfossi að ósnum, sigla ánna og ósinn eins og hægt er ásamt því að keyra fjöru.

Auk þess verður notast við dróna til að leita ósinn og Kaldaðarnes. Björgunarmenn hafa síðustu vikuna siglt reglulega á ánni, leitað við ósinn og gengið bakka árinnar án árangurs.

Á fjórða tug leitarmanna er nú við störf og von er á fleirum er líður á morguninn.

Tilkynning barst lögreglu klukkan 02:40 aðfaranótt 26. desember og upphófst þá leit að manninum við árbakka Ölfusár. Bíll mannsins fannst skammt frá Selfosskirkju. Leit að manninum hefur allar götur síðar verið afar umfangsmikil en hún er meðal annars gerð í samvinnu við fjölskyldu mannsins.

Maðurinn, Guðmundur Geir Sveinsson, var talinn af 27. desember. Hann var fæddur 13. apríl 1974 til heimilis að Kringlumýri 4 á Selfossi. Hann var ókvæntur og barnlaus. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×