Innlent

Samþykkja framkvæmdaáætlun um byggingu 214 nýrra hjúkrunarrýma

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt áætluninni verða byggð tvö ný hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu, annað í Reykjavík og hitt í Kópavogi.
Samkvæmt áætluninni verða byggð tvö ný hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu, annað í Reykjavík og hitt í Kópavogi. Vísir/Pjetur
Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur fallist á framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra sem felur í sér byggingu þriggja nýrra hjúkrunarheimila á næstu fimm árum.

Alls verða hjúkrunarrýmin 214 talsins – í Reykjavík, Kópavogi og Árborg – og er nemur áætlaður heildarkostnaður framkvæmdanna 5,5 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins og segist Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra afar ánægður með að geta loksins kynnt áætlunina. „Þetta er fyrsta skrefið í áætlunargerð sem ég mun að sjálfsögðu vinna með áfram í samræmi við skynsamlega forgangsröðun og þörf fyrir frekari uppbyggingu á landsvísu,“ segir Kristján Þór.

164 ný rými á höfuðborgarsvæðinu og fimmtíu í Árborg

Samkvæmt áætluninni verða byggð tvö ný hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu, annað í Reykjavík og hitt í Kópavogi. „Gengið verður til viðræðna við forsvarsmenn bæjarfélaganna tveggja um fyrirhugaða uppbygginu á næstunni. Á hjúkrunarheimilinu sem áformað er að byggja í Reykjvík verða 100 hjúkrunarrými en 64 á heimilinu í Kópavogi. Til viðbótar þessum rýmum má geta þess að framkvæmdir standa yfir við byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi með 40 rýmum. Stefnt er að því að taka það í notkun á næsta ári.

50 hjúkrunarrými á Árborgarsvæðinu

Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma miðast við að reist verði hjúkrunarheimili með 50 rýmum á Árborgarsvæðinu. Að hluta til leysa þessi rými af hólmi eldri rými á svæðinu þar sem markmiðið er að bæta aðbúnað aldraðra en 15 rýmanna verða hrein viðbót við fjölda hjúkrunarrýma á svæðinu.

Fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda

Hjúkrunarheimili sem byggð hafa verið á síðustu árum hafa flest verið fjármögnuð með svokallaðri leiguleið þar sem sveitarfélögin standa að og fjármagna framkvæmdir en framlag ríkisins felst í leigugreiðslum sem telst ígildi stofnkostnaðar. Áætlunin sem hér er kynnt byggist aftur á móti á hefðbundinni fjármögnunarleið þar sem 40% stofnkostnaðar rennur úr Framkvæmdasjóði aldraðra, ríkissjóður greiðir að hámarki 45% og sveitarfélögin að lágmarki 15%. Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu hjúkrunarheimilanna þriggja nemur 5,5 milljörðum króna,“ segir í fréttinni.

Nánar má lesa um áætunina á vef ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×