Innlent

Enn mikið álag á öllum deildum Landspítalans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Enn er mikið álag á öllum deildum Landspítalans þar sem hægt gengur að útskrifa suma sjúklinga sem hlotið hafa viðeigandi læknismeðferð á spítalanum. Einkum á þetta við um þá sjúklinga og hafa fengið færni-og heilsumat og svo þá sem bíða endurhæfingar en Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, fer yfir þessa stöðu í pistli sem hann birti á vef spítalans í gær.

Páll segir afar mikilvægt fyrir þessa einstaklinga að komast sem fyrst í viðeigandi þjónustu þar sem hægt er mæta þörfum þeirra með fullnægjandi hætti:

„Slíka þjónustu er ekki að fá á bráðadeildum Landspítala þar sem nú bíða tugir einstaklinga. Það er ekki viðunandi staða. Við myndum að lágmarki vilja geta boðið þessum hópi þjónustu á borð við þá góðu þjónustu sem við veitum þeim einstaklingum sem nú bíða hjúkrunarrýmis á biðdeild okkar á Vífilstöðum,“ segir Páll í pistli sínum.

Í þessu samhengi segist Páll því fagna áformum um uppbyggingu hjúkrunarheimila auk þess sem hann segir að spítalinn eigi „í mjög markvissum viðræðum við velferðarráðuneytið um úrlausnir til skemmri tíma. Þar er unnið fljótt og vel og bind ég vonir við að þær lausnir verði kynntar fljótlega.“

Rétt áður en fjárlög þessa árs voru samþykkt á Alþingi í desember síðastliðnum tilkynnti Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, að Landspítalinn fengi milljarð króna til að mæta þessum vanda sem Páll reifar í pistli sínum í gær. Þörf er á því að fleiri sjúkrapláss fyrir bráðatilfelli og þá er stefnt að því að bæta þá þjónustu sem aldraðir fá og færa hana í auknum mæli út fyrir veggi spítalans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×