Innlent

Good Morning America náði einstökum myndum á Breiðamerkurjökli

Birgir Olgeirsson skrifar
Breiðamerkurjökull hefur hörfað um átta kílómetra á rúmlega einni öld og nýtti Good Morning America jökulinn sem dæmi um áhrif hnattrænnar hlýnunar á jökla.
Breiðamerkurjökull hefur hörfað um átta kílómetra á rúmlega einni öld og nýtti Good Morning America jökulinn sem dæmi um áhrif hnattrænnar hlýnunar á jökla. Vísir/ABC
Fréttateymi bandaríska sjónvarpsþáttarins Good Morning America var með beina útsendingu frá Breiðamerkurjökli í dag þar sem dróna var flogið ofan í íshelli.

Nefndist innslagið „Into the Ice“ þar sem ætlunin var að sýna fegurð jökulsins en um leið þau grafalvarlegu áhrif sem hnattræn hlýnun hefur á jökla.

Töluvert umstang var vegna útsendingarinnar frá jöklinum. Uppsetningin tók þrjá daga þar sem tólf manna teymi lagði 1,2 kílómetra af kapli og þurfti að ganga um fjörutíu mínútur með útsendingarbúnaðinn svo þessi beina útsending gæti orðið að veruleika.


ABC Breaking News | Latest News Videos
Jarðeðlisfræðingurinn Helgi Björnsson segir í samtali við Vísi að Breiðamerkurjökull henti fullkomlega til að sýna fram á hve mikið jöklar hafa bráðnað undanfarna áratugi vegna hnattrænnar hlýnunar.

„Á rúmlega einni öld hefur jökullinn hörfað um átta kílómetra og það er komið þarna 25 ferkílómetra lón undan jöklinum sem ekki sást neitt í árið 1934. Þannig að þetta eru mjög hraðar breytingar,“ segir Helgi.

Jökullinn nær alveg niður að sjávarmáli og sjást breytingarnar á  honum frá þjóðveginum.


ABC Breaking News | Latest News Videos
„Þú þarft ekki að fara til Suðurskautslandsins eða Grænlands. Þú ferð bara til Íslands og keyrir eftir þjóðveginum. Þannig að þetta er alveg einstakur staður og því ekki skrýtið að þau skuli koma hingað til að lýsa þessu svona fyrir fólki á svo auðveldan hátt,“ segir Helgi.

Með bráðnun jökla hækkar yfirborð sjávarmáls sem ógnar byggðum við strandlengju og var það sérstaklega nefnt í umfjöllun Good Morning America að slíkt muni hafa töluverð áhrif á byggð í Flórída í Bandaríkjunum.

Teymið sem kom að beinu útsendingunni.
„Þessi þróun er áhyggjumál fyrir alla jarðarbúa. Það hækkar í sjávarmálinu og hafið mun ná lengra inn á land og þeir eru náttúrlega hræddir við það í Flórída. En þetta mun hafa áhrif víða, til að mynda á suður Indlandi og norður Evrópu, svo sem Hollandi og fleiri stöðum,“ segir Helgi.

Þessi þróun var rædd í þaula á loftslagsráðstefnunni í París í síðasta mánuði og mun áhugi manna á þróun jökla hér á landi ekki minnka eftir þá ráðstefnu að mati Helga.

Fréttateymi hafi áður fjallað um jökla Íslands og Helgi spáir því að komur erlendra fjölmiðla hingað til lands verði mun fleiri á komandi ári en áður hefur verið. 


ABC Breaking News | Latest News Videos

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×