Innlent

Veiðimenn undrandi á Náttúrufræðistofnun

Sveinn Arnarson skrifar
Mat Náttúrufræðistofnunar á varpstofni rjúpu er afar vítt.
Mat Náttúrufræðistofnunar á varpstofni rjúpu er afar vítt. Vísir/Pjetur
Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) og Umhverfisstofnun eru ósammála um fyrirkomulag veiða á rjúpu í vetur. Skotveiðifélag Íslands átelur vinnubrögð NÍ. Rannsóknir á varpstofni rjúpunnar séu ámælisverðar.

Náttúrufræðistofnun ráðlagði Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, í vikunni, að heimila veiði á um 40 þúsund fuglum og að veiðidagarnir yrðu aðeins tólf. Umhverfisstofnun vill hins vegar 18 veiðidaga og rjúpnaveiðibann fari varpstofninn undir 90 þúsund fugla.

Dúi Landmark, formaður Skotvís félags skotveiðiáhugamanna, segir Umhverfisstofnun sjá um veiðistjórnun. NÍ eigi ekki að koma með tillögur um veiðitilhögun heldur einvörðungu að meta stofnstærðir nytjastofna á landi.

„NÍ seilist þar með eitt árið til inn á starfssvið Umhverfisstofnunar sem er veiðistjórnun,“ segir Dúi.

Á síðustu árum hafa farið á annað hundrað milljónir króna úr veiðikortasjóði til að meta varp­stofn rjúpu sem er einn sá mest rannsakaði á landinu. Í vor mat NÍ varpstofninn á bilinu 47 þúsund til 1,2 milljónir fugla. Í því virðist lítil vísbending um raunstærðina.

„Við veiðimenn viljum sjálfbærar veiðar og styðjum rannsóknir á stofninum. Það er hins vegar skrýtið eftir allan þennan tíma þar sem veiðimenn hafa greitt fyrir rannsóknir með kaupum á veiðikortum, að þekking NÍ á varpstofni rjúpu er mjög lítil,“ segir Dúi.

Ólafur K. Níelsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir unnið að því að bæta mælitækin og aðferðirnar til að meta nákvæmar varpstofn rjúpunnar.

„Unnið hefur verið að því að þrengja öryggismörk en það hefur aðeins verið gert með gögnum frá Norðausturlandi án þess að yfirfæra það á landið allt. Náttúrufræðistofnun er ein þeirra stofnana sem senda umhverfisráðuneytinu tillögur um tilhögun rjúpnaveiða og ákvörðunin er síðan í höndum umhverfisráðherra,“ segir Ólafur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×