Innlent

Ekkja Ólafs Lárussonar gefur Nýlistasafninu fjölda verka

Magnús Guðmundsson skrifar
Becky Forsythe og Þorgerður Ólafsdóttir munu stýra yfirlitssýningu á verkum Ólafs Lárussonar í Marshall-húsinu í upphafi næsta árs.
Becky Forsythe og Þorgerður Ólafsdóttir munu stýra yfirlitssýningu á verkum Ólafs Lárussonar í Marshall-húsinu í upphafi næsta árs. Vísir/Anton Brink
Nýlistasafninu barst í vikunni gjöf frá Sigrúnu Báru Friðfinnsdóttur, ekkju Ólafs Lárussonar myndlistarmanns.

Ólafur var á meðal mikilvirkustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar en féll frá árið 2014. Hann hefði fagnað 65 ára afmæli sínu í dag, þann 10. september.

Gjöfin inniheldur mikið af efni frá vinnustofu Ólafs frá árunum 1970 til 1990, þar með talinn hluti af persónulegu bókasafni hans, filmusafn, negatífur og upptökur af gjörningum, listaverk, ljósmyndir, skyggnur, verk á hugmyndastigi og fjölmargt fleira.

Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, segir að fyrir dyrum standi yfirlitssýning á verkum Ólafs í upphafi næsta árs í nýju sýningarrými safnsins í Marshall-húsinu úti á Granda.

„Einn mikilvægasti hluti þessarar veglegu gjafar er að söfnin eru að endurskoða hlutverk sitt með það hverju þau eiga að safna. Hérna erum við að tala um allt sem fyrirfinnst á vinnustofu listamanna. Efni sem varpar miklu betra ljósi og veitir betri innsýn í ferli listamanns og þá hugmyndavinnu sem liggur á bak við verkin,“ segir Þorgerður.





Rollingline, verk eftir Ólaf Lárusson.
Ólafur var einn af stofnendum Nýlistasafnsins og sýningin sem stendur fyrir dyrum hefur verið lengi í burðarliðnum.

„Því miður tókst ekki að koma þessari sýningu upp áður en hann féll frá. Þess vegna á þessi sýning að vera hylling á lífi hans og starfi og draga fram í ljósið öll þessi merku verk sem hann gerði á þessum tíma. Verk sem hafa aldrei verið sýnd saman.“

Þorgerður segir að safnið sé nú með mikið efni, líka frá söfnum og einkasöfnum, og að það verði mikil áskorun að gera því góð skil. 

„Ég lét Sigrúnu Báru vita fyrir um ári að þessi sýning stæði fyrir dyrum sem opnunarsýning Marshall-hússins,“ segir Þorgerður. Í vor hafi Sigrún Bára tekið ákvörðun um að afhenda safninu allt þetta efni.

„Við erum ákaflega þakklát fyrir það. Ólafur hafði sjálfur haldið utan um og skráð allt sérstaklega vel. Þannig var hann í raun búinn að leggja línurnar fyrir okkur með hvernig við ættum að varðveita efnið hans.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×